Bjarni ætlar að klára einn landsfund og draga sig fljótlega í hlé

Innan úr innsta hring Sjálfstæðisflokksins heyrist nú að Bjarni Benediktsson hafi ákveðið að bjóða sig fram til áframhaldandi formennsku í Sjálfstæðisflokknum á landsfundi í byrjun nóvember á þessu ári. Um tíma var talið óvíst hvort Bjarni vildi halda áfram formennsku en nú liggur ákvörðun hans fyrir.

Vitað er að hann er fyrir löngu orðinn leiður á stjórnmálavafstrinu og hefur beðið þess að færi gæfist til að stíga út við réttar aðstæður. En þær aðstæður hafa ekki myndast. Bjarni tók við formennsku í flokknum vorið 2009 og er því kominn á fjórtánda ár á formannsferli sínum. Haldi hann áfram getur hann farið fram úr Davíð Oddssyni á næsta ári hvað varðar lengd formannssetu, en Davíð gegndi formennsku 1991 til 2005. Hermt er að Bjarn vilji sitja eitthvað lengur en Davíð gerði og festa sig í sessi sem næstþaulsetnasti formaður flokksins frá upphafi og verða þá næstur á eftir Ólafi Thors.

Bjarni Benediktsson hefur leitt flokkinn í Alþingiskosningum 2009, 2013, 2016, 2017 og 2021. Fylgið hefur yfirleitt sveiflast í kringum 25 prósent sem er gríðarlega slakt í sögulegu samhengi. Þá hefur flokknum ekki tekist að komast til valda í Reykjavík í formannstíð Bjarna. Það eitt og sér er út af fyrir sig mikið áfall sem veldur vonbrigðum og nánast sorg í flokknum.

Þá hefur það valdið Bjarna erfiðleikum að ekki hafi komið fram verðugur eftirmaður hans til að taka við formennsku Sjálfstæðisflokksins. Hann ber sjálfur ábyrgð á því. Lykilhlutverk góðra leiðtoga er að finna hæfan arftaka Að margra mati er Guðlaugur Þór Þórðarson fullfær um að taka við flokknum, en Bjarni og flokkseigandahópurinn í kringum hann fellir sig greinilega ekki við Guðlaug Þór. Er það ein ástæða þess að Bjarni hefur talið sig verða að sitja lengur á formannsstóli en hann hefði kosið. Guðlaugur á öfluga hópa fylgjenda í flokknum og talið er að hann gæti unnið alla í formannskosningu nema Bjarna sjálfan.

Svo virðist sem niðurstaðan sé sú að treysta því að Þórdís Kolbrún Gylfadóttir, varaformaður flokksins og utanríkisráðherra, geti tekið við formennsku af Bjarna í fyllingu tímans. En til þess að svo megi verða þarf hún að komast hjá því að heyja einvígi við Guðlaug Þór um formannsembættið þegar Bjarni stigi til hliðar.

Þess vegna mun áætlun Bjarna og Þórdísar líta svona út: Bjarni Benediktsson býður sig fram til formanns á landsfundi í nóvember nk. Enginn fer á móti honum og því verður hann endurkjörinn. Þórdís Kolbrún verður einnig endurkjörin sem varaformaður án alvarlegs mótframboðs. Við myndun núverandi vinstri stjórnar var Þórdís Kolbrún færð yfir í sæti utanríkisráðherra með það að markmiði að gefa henni meira pólitískt vægi. Fljótlega eftir landsfundinn, til dæmis um næstu áramót, skipta Bjarni og Þórdís Kolbrún á ráðherraembættum. Bjarni verður utanríkisráðherra og Þórdís Kolbrún tekurvið embætti fjármálaráðherra sem af flestum er talið ganga næst á eftir embætti forsætisráðherra að mikilvægi.

Þannig gæti skipan verið fram eftir árinu 2023 – þar til Bjarni hefur setið lengur á formannsstóli en Davíð Oddsson. Þá gæti hann sagt skilið við stjórnmálin, sagt af sér ráðherraembætti og formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Varaformaðurinn Þórdís Kolbrún tæki þá við formennsku án þess að þurfa að etja kappi við Guðlaug Þór Þórðarson um stöðuna. Þetta er trúlega eina örugga leiðin til að koma í veg fyrir að Guðlaugur Þór Þórðarson taki við formennsku í flokknum þegar Bjarni stígur af sviðinu.

En svo kemur röðin að landsfundi á nýjan leik, trúlega árið 2024. Þá getur allt gerst!

- Ólafur Arnarson