„Ástráður er eðaleintak sem hefur verið mikil gæfa að hafa sér við hlið í lífinu“

Ástráður Haraldsson var nýlega settur ríkissáttasemjari í deilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins. Hann stendur í ströngu þessa dagana við að leysa deiluna og eru miklar vonir bundnar við að honum takist ætlunarverkið. Fréttablaðið segir nánar frá settum ríkissáttasemjara.

Ástráður er fæddur þann 27. ágúst árið 1961, hann lauk embættisprófi í lögfræði árið 1990. Ástráður var þá gjarnan kallaður Stráði af vinum sínum. Hann starfaði sem lögmaður í Reykjavík frá árinu 1992 og öðlaðist málflutningsréttindi fyrir Hæstarétti árið 1995. Ástráður starfar nú sem héraðsdómari og telja margir hann mann fárra orða. Ástráður lét meðal annars þau fleygu orða falla nýverið að tal væri silfur en þögnin gull.

Vinir og vandamenn Ástráðs eru sammála um að hann sé stórskemmtilegur og fyndinn. Hann þurfi alltaf að hafa eitthvað fyrir stafni og sé söngmaður mikill og partípinni, fáir kunni annan eins hafsjó af textum.

Ástráður er giftur Eyrúnu Finnbogadóttur tónmenntakennara og saman eiga þau tvo syni, Egil og Snorra. Eyrún segir Ástráð umfram allt einstaklega fallega, góða og hjartahlýja manneskju.

„Ástráður er eðaleintak sem hefur verið mikil gæfa að hafa sér við hlið í lífinu. Skemmtilegur og drífandi, með mikla réttlætiskennd og afar lítinn verkkvíða,“ segir Eyrún.

Egill sonur þeirra segir margt hægt að segja um pabba sinn. Hann sé fyrst og fremst stórskemmtilegur, fyndinn og það sé gaman að vera í kringum hann. Hann láti sér sjaldan leiðast, sé afar músíkalskur og gefi aldrei neinn afslátt á skoðunum sínum.

„Að vakna við háan hljóm af Stevie Wonder eða David Bowie á laugardagsmorgni er til dæmis eitthvað sem ég var löngu hættur að kippa mér upp við á meðan ég bjó enn hjá foreldrum mínum,“ segir Egill.

Þá segir hann mjög skemmtilegt að ferðast með pabba sínum út á land, hann sé kunnugur staðarháttum víða og skemmtilegur sögumaður. „Ég stóð mig til dæmis að því um daginn á ferð um norðurlandið með félögum mínum að tilkynna þeim að í Akrahreppi í Skagafirði byggi ómerkilegasta fólk landsins. Þeir kannski réttilega furðuðu sig á þessari ályktun minni en ég greindi þeim einfaldlega frá því að það væri vegna þess að þau hefðu verið vond við Bólu-Hjálmar. Þessi samfélagsgreinandi landafræði og óafsakandi frásagnarstíll kemur þráðbeint frá pabba.“

Ástráður var giftur Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra og saman eiga þau tvö börn, Auði og Odd. Auður segir pabba sinn snjallan og lausnamiðaðan karakter. Hann sé gríðarlega bóngóður og að uppáhaldið hans sé sennilega að hafa eitthvað fyrir stafni.

„Hann gengur raunar eiginlega í allt, góður í ótrúlega mörgu. Til dæmis að smíða, brasa og hanna og búa til falleg heimili, elda frábæran mat og bjóða í rausnarleg og flott boð,“ segir Auður.

„Hann er mjög ákveðinn og viss þegar hann hefur tekið ákvörðun. Hann er alltaf stundvís og nákvæmur með tíma og klæðaburð og snyrtimennsku. Svo er hann líka öflugur í kórastarfi, útivist og hreyfingu og hefur hlaupið mikið í gegnum tíðina. Kannski er hans helsti galli hversu lélegur hann er að tjilla og staldra við, en það verður verkefni sem hann mun taka alvarlega að tileinka sér líka, það er alveg öruggt.“

Þá segir Auður pabba sinn frægan fyrir að fara fyrstur úr öllum boðum, hann hafi til að mynda gert sér það að leik á aðfangadag að vera kominn heim úr messusöngnum áður en eftirspili ljúki til þess að hræra í sósunni.

„Það er dýrmætt og mikil lukka að eiga slíkan hauk í horni þegar taka skal stórar ákvarðanir eða framkvæma eitthvað, þá er hann „mættastur“ og alveg á hreinu að hann er í viðeigandi klæðnaði.“

Hægt er að lesa meira hér.

Fleiri fréttir