Áratuga dýraníð í boði íslenskra stjórnvalda þarf að stöðva strax

Stórhvaladráp við strendur Íslands hefur verið deiluefni um áratugaskeið. Kristján Loftsson, forstjóri Hvals hf., hefur þráast við og haldið úti þessum umdeildu veiðum gegn vilja flestra hugsandi Íslendinga í áratugi. Hagkvæmni þessarar starfsemi er takmörkuð en skaðinn sem drápið veldur er umtalsverður, Íslendingar fá á sig vont orð fyrir dýraníð sem fólk fyrirlítur víða um heim. Sú hætta er ávallt fyrir hendi að mikilvægar atvinnugreinar á borð við ferðaþjónustu og sjávarútveg verði fyrir verulegu ímyndartjóni vegna stórhvaladrápsins.

Nú hefur Matvælastofnun birt skýrslu um framvindu veiðanna á síðasta ári sem upplýsir að dýrin kveljast mikið áður en tekst að aflífa þau og stundum þarf að skjóta sprengiskutlum í þau margsinnis. Þetta þykir ómannúðlegt og óboðlegt hjá þjóð sem vill láta telja sig til siðaðra landa. En þegar kemur að stórhvaladrápi geta Íslendingar ekki státað af því að standa að málum með boðlegum hætti. Hvalveiðar Hvals hf. jaðra við að vera brot á alþjóðlegum dýraverndunarlögum.

Með útgáfu umræddrar svartrar skýrslu hefur magnast krafan um að stórhvaladrápi verði hætt strax. Nú er ekki lengur hægt að skoða málið, setja það í nefnd og svæfa það með einhverjum hætti. Nú þarf að stíga skrefið til fulls og banna þessa starfsemi. Dýraníð má ekki viðgangast lengur.

Valdið liggur nú hjá Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra en hún kemur frá Vinstri grænum sem gefa sig út fyrir að vera flokkur náttúruverndar og þar með dýraverndar þó að talsvert vanti upp á að forystumenn flokksins hafi sýnt þá stefnu í verki. Nú er tækifærið. Ef Svandís lætur þetta ástand viðgangast eftir að hafa fengið upp á yfirborðið svo svarta skýrslu, ætti hún og flokkur hennar hið minnsta hætta að gefa sig út fyrir að þykjast vera náttúruverndarflokkur.

Á undanförnum árum hafa ráðherrar Sjálfstæðisflokksins verið gagnrýndir fyrir að ganga erinda Kristjáns Loftssonar, enda hefur Hvalur hf. verið einn helsti fjárhagslegi bakhjarl flokksins í áratugi. Nú er ekki lengur hægt að gagnrýna fyrrum ráðherrana Kristján Þór Júlíusson og Einar Kristinn Guðfinnsson því að þeir eru hættir og ráða engu um þessi mál lengur.

Nú er það ráðherra Vinstri grænna sem hefur nú valdið og framvindu þessa máls í hendi sér. Aðhyllist Svandís Svavarsdóttir dýraníð eða er hún sannur dýravinur? 

Við fáum brátt svör við því.

- Ólafur Arnarson