Anna stendur í stappi við skráningar­skrif­stofuna: „Og nú kemur stóra spurningin. Er ég lifandi eða er ég dáin?“

Anna Kristjáns­dóttir, íbúi á Tenerife, rakti ó­farir sínar í sam­skiptum við sænska eftir­launa­sjóðinn á Face­book í vikunni. Eftir­launa­sjóðurinn hafði lokað á líf­eyris­greiðslur til Önnu og sendi bréf því til stað­festingar til Ís­lands, sem Anna aldrei fékk. Anna gekk í málin og mætti á skráningar­stofuna á Tenerife, til að sækja um lífs­vott­orð.

„Þegar ég fór þangað fyrst tók það mig nánast enga stund. Það var skömmu eftir út­göngu­bann og allt meira og minna lokað. Ég þurfti að standa utan­dyra og öryggis­vörður tók við skjalinu, fór inn með það og einni mínútu síðar var ég með það skjal­fest að ég væri á lífi. Er ég fór öðru sinni í janúar 2021 gekk það sömu­leiðis hratt og vel fyrir sig, fékk það af­greitt eftir stutta bið, þurfti reyndar að bíða utan­dyra uns kom að mér og full­trúinn fyrir innan glerið horfði rann­sakandi á mig eins og til að full­vissa sig um að það leyndist ör­lítið lífs­mark með mér. Eitt­hvað lífs­mark sá hann, stimplaði skjalið og ég fór brosandi í burtu,“ skrifar Anna.

Í fyrra hafi það hins vegar verið verra, þegar biðin hafi verið nær þrír tímar.

„Full­trúinn sem tók við skjalinu tók við því og fór með það af­síðis, en ég þurfti að bíða á bið­stofunni á meðan. Loksins fékk ég vott­orðið stimplað og hélt heim á leið, þó enn ó­viss um það hvort ég væri lífs eða liðin,“ skrifar Anna.

„Það gekk hraðar fyrir sig í gær. Ég hafði mætt tíman­lega rétt fyrir opnun og komst að eftir hálf­tíma bið. Full­trúinn sem tók á móti mér horfði lengi í augun á mér, skoðaði vega­bréfið og öku­skír­teinið, þið vitið þetta með hræði­legu myndinni, horfði lengi á fyrir­fram­gert vott­orðið þar sem einungis vantaði stimpil og dag­setningu og neitaði síðan að undir­rita vott­orðið tautandi eitt­hvað um að ég væri nánast dáin, kallaði síðan á annan full­trúa sem til­kynnti mér að ekki væri hægt að undir­rita vott­orðið með þeim orðum að full­trúinn sem vottaði hvort fólk væri lifandi eða dáið væri í verk­falli. Og ég fór grátandi heim,“ skrifar Anna.

Þetta út­spil starfs­mannana hafi hins vegar ekki verið sann­færandi segir Anna. Heill her fólks hafi verið við vinnu á skrif­stofunni að stimpla skjöl, en einungis sá sem dæmir hvort fólk sé lifandi eða dáið var í verk­falli.

„Ég hlýt samt að lifa það af að þrauka þar til verk­fallið leysist, eða ekki. Kannski vissara að kalla til réttar­meina­fræðing til úr­skurðar um and­lát mitt. Og nú kemur stóra spurningin. Er ég lifandi eða er ég dáin? Þar liggur efinn,“ skrifar Anna.

„And­lát mitt er kannski vesælla en frægasta skemmti­ferða­skips heimsins. Búið er að til­kynna að Astoria fari senn í pottinn ill­ræmda. Astoria hét upp­haf­lega Stock­holm, smíðuð 1948 og sigldi á milli Sví­þjóðar og Ameríku fyrstu árin. Árið 1956 lenti hún í á­rekstri við ítalska skipið Andrea Doria sem sökk eftir á­reksturinn, en 46 manns fórust við þennan á­rekstur. Skipið lenti síðar í höndum Austur-Þjóð­verja og síðar rekið sem skemmti­ferða­skip, kom oft til Ís­lands sem Astoria og sjálf hefi ég fylgt skipinu til hafs úr höfn í Reykja­vík.“

„Grátum frekar and­lát skipsins en mín. Vesal­dómur minn er hvort eð er einungis fót­spor í sandi ei­lífðarinnar,“ skrifar Anna.

Fleiri fréttir