Ágúst Ingi hefur lifað tímana tvenna

Ágúst Ingi Jónsson hefur látið af starfi fréttastjóra á Morgunblaðinu eftir 50 ára feril á blaðinu. Hann gerir upp langan feril í skemmtilegu og fræðandi viðtali við blaðið nú um helgina. Ágúst Ingi hefur lifað tímana tvenna á blaðinu. Framan af ferlinum naut blaðið mikillar útbreiðslu og virðingar á meðan ritstjórar á borð við Matthías Johannessen réðu ríkjum og héldu uppi faglegri blaðamennsku.

Verslunarráð Íslands hélt utan um upplagseftirlit og gaf út tölur þar um. Upplag Morgunblðsins var staðfest 55 þúsund eintök um aldamótin. Síðan þá hefur landsmönnum fjölgað um 35 prósent. Sambærileg útbreiðsla þyrfti því að vera 74 þúsund nú miðað við fjölgun landsmanna. Það er reyndar svipuð tala og Fréttablaðið er prentað í um þessar mundir. Áskrifendur Morgunblaðsins eru nú komnir niður undir tíu þúsund á virkum dögum, en gestir á Þjóðhátíð í Eyjum nú um helgina eru fleiri, þannig að Ágúst Ingi hefur orðið vitni að gríðarlegum breytingum hjá blaðinu á sínum langa og farsæla ferli.

Í viðtalinu rekur Ágúst ýmsa eftirminnilega viðburði og fjallar af hlýju um vinnufélaga sína á blaðinu í gegnum tíðina. Óhætt er að segja að framan af starfsferli hans hafi „landslið“ blaðamanna starfað á Morgunblaðinu, en nú þegar Ágúst Ingi hverfur af vettvangi er nánast enginn eftir úr því liði nema Sigtryggur Sigtryggsson sem stóð vaktina með honum allan tímann. Undir glæsilegri forystu Matthíasar Johannessen störfuðu á blaðinu blaðamenn á borð við Elínu Pálmadóttur, Björn Vigni Sigurpálsson, Steinar J. Lúðvíksson, Freystein Jóhannsson, Árna Johnsen, Magnús Finnsson, Guðrúnu Hálfdánardóttur, Agnesi Bragadóttir, Björn Jóhannsson og Gísla Sigurðsson – að ógleymdum þeim Þorsteini Pálssyni og Styrmi Gunnarssyni. Þetta var óneitanlega mikil breiðfylking öflugra og áhrifamikilla blaðamanna.

Ekki er skrítið að Ágúst Ingi líti til baka og horfi yfir liðinn tíma með söknuði vegna þeirra miklu breytinga sem hafa orðið. Á síðustu öld voru engin fríblöð að stela senunni og þá voru ekki vefmiðlar og aðrir rafrænir fréttamiðlar fyrstir með fréttirnar. Lesendur frétta biðu þolinmóðir eftir að fá pappírsmiðlana í hendur til að lesa fréttir og fylgjast með þróun líðandi stundar.

Ágúst Ingi rekur skilmerkilega í viðtalinu hvernig tæknin hefur þróast og hvernig starfsemi útgáfufélag Morgunblaðsins, Árvakurs, hefur færst smám saman út í uppsveitir höfuðborgarsvæðisins á þessari hálfu öld. Allt er það athyglisvert og upplýsandi. Hann lætur þó ógert að nefna þá mikilvægu atburði í sögu útgáfunnar þegar stóru bankarnir á Íslandi tóku mestan þátt í að endurreisa Morgunblaðið fjárhagslega með því að fella niður skuldir upp á marga milljarða króna. Ekki einu sinni, heldur tvisvar. Niðurfellingarnar námu nokkrumm milljörðum í hvort skipti á þess tíma verðlagi.

Ágúst Ingi Jónsson á glæsilegan blaðamannsferil að baki. Honum fylgja góðar kveðjur og óskir um að tíminn fram undanverði honum gleðilegur í hvívetna.

- Ólafur Arnarson