70 prósent landsmanna vilja Bjarna út úr ríkisstjórn, þar af 24 prósent sjálfstæðismanna – með valdhrokann að vopni situr hann áfram

Bjarni Benediktsson er ráðherrann sem sagði af sér án þess að segja af sér. Hann hrökklaðist í dag úr fjármálaráðuneytinu eftir að Umboðsmaður Alþingis lýsti hann vanhæfan, hann hafi framið afglöp í starfi sem gerðu það að verkum að hann varð að yfirgefa fjármálaráðuneytið.

Á þriðjudaginn setti Bjarni á svið vel æft leikrit þar sem hann lék fórnarlamb og sagðist vera miður sín vegna þessa máls, tilkynnti um afsögn sína í fjármálaráðuneytinu og fullyrti að um algera óvissu væri að ræða varðandi framtíð hans í stjórnmálum. Auðmýktin stóð yfir part úr degi. Síðan var haldið áfram með leikritið sem lauk í dag með stólaskiptum við varaformann flokksins sem víkur úr stöðu utanríkisráðherra fyrir Bjarna og tekur við af honum. Þetta var allt löngu ákveðið og algerlega fyrirsjáanlegt.

Leikritið sem hefur verið leikið af formönnum ríkisstjórnarinnar síðustu 5 daga er svo gegnsætt að kjósendur láta ekki blekkjast. Ekki hjálpar það ríkisstjórninni sem reynist vera rúin trausti samkvæmt öllum skoðanakönnunum en fylgið hefur farið jafnt og þétt niður síðasta árið og mælist nú einungis 35 prósent. Stjórnin er kolfallin samkvæmt öllum könnunum.

Eiríkur Rögnvaldsson, prófessor emeritus, lýsti aðferð Sjálfstæðisflokksins við réttlætingu stólaskiptanna þannig að þetta líkist því að ökumaður Benz missi ökuréttindi vegna ölvunaraksturs en telji sig áfram hafa heimild til að aka Skoda. Bjarni ákvað að víkja úr fjármálaráðuneytinu en gerði samt lítið úr áfellisdómi Umboðsmanns. Hann hefur einnig sagt að ótækt væri að formaður eins stjórnarflokksins sæti ekki í ríkisstjórn. Það er alveg hægt að taka undir þá skoðun. Þess vegna átti Bjarni Benediktsson einnig að víkja sem formaður flokksins og þá hefði varaformaðurinn tekið við. Til þess eru varaformenn að taka við sé formaður af einhverjum sökum ófær um að gegna starfi sínu.

En Bjarni ákvað að láta valdhrokann ráða för, ekki í fyrsta sinn á sínum ferli, og færði sig vanhæfur úr einu ráðuneyti yfir í annað eins og ekkert hafi í skorist. Fyrir liggur að samkvæmt skoðanakönnun vilja 70 prósent kjósenda að hann hverfi alveg úr ríkisstjórninni. Og svo mikil er andúðin í garð Bjarna að 24 prósent sjálfstæðismanna vilja samkvæmt sömu könnun losna við hann úr íslenskum stjórnmálum.

Því er spáð hérna að Bjarni Benediktsson berjist í gegnum þann erfiða þingvetur sem fram undan er en segi svo af sér næsta sumar ráðherradómi, formennsku í flokknum og þingmennsku. Sendiherraembættið í Washington bíður hans. Það þykir ekkert neyðarbrauð enda hafa stór nöfn úr íslenskum stjórnmálum ráðið þar ríkjum, eins og Geir Haarde og áður Jón Baldvin Hannibalsson.

Þó að formenn stjórnarflokkanna hafi ítrekað komið fram undanfarna sólarhringa til að undirstrika hve mikil samstaða sé í stjórnarflokkunum (þar sem hver höndin er upp á móti annarri) vita landsmenn betur. Þeir vita einnig að límið í ráðherrastólum er firnasterkt. En mun það duga fram á árið 2025? Vandamálin hafa ekki haggast þrátt fyrir yfirlýsingar og fölsk bros formannanna.

Líklega lendir þessi vinstristjórn í því sama og vinstristjórn Jóhönnu Sigurðardóttir sem starfaði lifandi dauð síðustu 18 mánuði og tapaði fylgi jafnt og þétt. Vinstristjórn Katrínar mun halda áfram að tapa fylgi til stjórnarandstöðunnar þar sem Samfylkingin er þegar komin yfir 30 prósent. Hvar endar sú fylgisaukning því ekki sér fyrir endann á henni?

Kaldur vetur fer í hönd á stjórnarheimilinu því að nú er stuttri og misheppnaðri leiksýningu lokið. Alvaran tekur við að nýju.

Eftir situr þjóðin og spyr sig hverju það sæti að íslenskir ráðamenn beri minni ábyrgð en afleysingastarfsfólk í Bónus. Afleysingafólkið í Bónus verðskuldar virðingu almennings sem er meira en hægt er að segja um núverandi ráðamenn eftir allan þennan ys og þys út af engu undanfarna daga. Ríkisstjórnarsamstarfið er nú grímulaus ófyndinn farsi sem enginn bað um að fá að sjá en allir skikkaðir til að borga sig inn á.

- Ólafur Arnarson