Vont frumvarp og vanhugsað þjóðaratkvæði

Vont frumvarp og vanhugsað þjóðaratkvæði

Fjöldi þeirra sem undirritað hafa áskorun til forseta Íslands um að staðfesta ekki væntanleg makríllög er orðinn svo mikill að ríkisstjórnin er föst í bóndabeygju með frumvarpið. 

Makrílfrumvarpið er í sjálfu sér einfalt eitt og sér. En það snýst um heitasta deilumál stjórnmálanna. Fyrir þá sök er það flókið.

Núverandi forseti Íslands  hefur aldrei stuðst við nein grundvallarsjónarmið þegar hann hefur tekið afstöðu til þess hvort hann samþykkir lagafrumvörp eða synjar þeim. Skilgreiningar hans og yfirlýsingar fjúka til og frá eins og laufblöð sem fallið hafa að hausti.

Þeir sem skrifa undir bænaskjalið geta því ekki treyst á neitt. Hótanir forsetans í garð síðustu ríkisstjórnar vegna fiskveiðifrumvarpa, sem hún náði reyndar aldrei samstöðu um sjálf, snerust um pólitíska stöðu  hans á þeirri stundu. Nú er vindáttin önnur. En vandinn er að ríkisstjórnin getur ekki heldur reiknað forsetann út þó að hún hafi látið honum eftir að móta utanríkisstefnuna.

Ríkisstjórnin getur illa tekið þá áhættu sem felst í þjóðaratkvæði. Í kjölfar hatrammra verkfalla mun þjóðaratkvæði ekki aðeins snúast um efni frumvarpsins heldur einnig ríkisstjórnina sjálfa. Það þarf ekki að spyrja að leikslokum. Ríkisstjórnin myndi standa kollótt á eftir.

Í þessu ljósi verður að telja ólíklegt að ríkisstjórnin freisti þess að afgreiða frumvarpið nema hún  nái fyrst samningum við forsetann um að beita ekki synjunarvaldinu. Komi forsetinn sér í slíka samningsstöðu má fullyrða að það yrði stærsti stjórnmálasigur hans frá upphafi. Þá væri komin ný vídd í stjórnskipun landsins.

Þjóðaratkvæðagreiðsla er engin lausn

Ríkisstjórnin á engar góðar útgönguleiðir eins og málum er komið og hvernig sem á málið er litið.

Hugmyndir um markaðslausnir þar sem uppboð myndi leysa veiðireynslu smám saman af hólmi við skiptingu aflaheimilda eru um margt áhugaverðar. Öll útfærsla þeirra er þó að mestu órædd. Til að mynda þarf að verja minni útgerðir með virkum og raunhæfum samkeppnisreglum. Meiri tíma þarf til að skoða hvernig slíkar lausnir geta litið út og gengið upp.

Verði engar lagabreytingar gerðar kemst sjávarútvegsráðherra ekki hjá að úthluta veiðiheimildum í makríl eftir gildandi lögum. Þau mæla fyrir um úthlutun á grundvelli veiðireynslu í ótiltekinn tíma. Láti ríkisstjórnin frumvarpið daga uppi eða verði það fellt í þjóðaratkvæði verður það niðurstaðan.

Með öðrum orðum er staðan sú að þeir sem segja nei í hugsanlegu þjóðaratkvæði eru um leið að ákveða að veiðiheimildum í makríl skuli úthlutað á grundvelli veiðireynslu til ótiltekins tíma. Ekki er þó víst að það sé raunverulegur vilji allra sem kalla eftir þjóðaratkvæði.

Þjóðaratkvæðagreiðslur eru oft og tíðum flóknari en þær líta út fyrir að vera. Margir héldu að þeir hefðu hafnað Icesave í þjóðaratkvæð. Nei þar merkti hins vegar já við því að flytja Icesave yfir í skuldabréf Landsbankans með ábyrgð skattgreiðenda.

Eins er með makrílfrumvarpið. Nei þar þýðir já við gildandi lögum sem meirihluti þjóðarinnar er andvígur ef marka má skoðanakannanir. Fátt bendir því til að þjóðaratkvæði um þetta makrílfrumvarp losi  þá bóndabeygju sem pólitíkin er í með fiskveiðistjórnunina.   

Það þarf umhugsunartíma

Gildandi lög eru að því leyti betri kostur en frumvarpið að þeim má breyta hvenær sem er.  Makrílfrumvarpið bindur þar á móti hendur manna í næstu átta ár að því gefnu að núverandi ríkisstjórn muni ekki segja nýtingarsamningum upp.

Það er slæm niðurstaða standi vilji manna til að reyna við lausn á þeim alvarlega pólitíska vanda sem við er að glíma á þessu sviði. Á Alþingi má semja og gera málamiðlanir en það er ekki hægt  í þjóðaratkvæðagreiðslum. Hitt er að Alþingi ræður ekki alltaf við pólitísk verkefni af því tagi.

Síðasta ríkisstjórn reyndi að leysa fiskveiðimálin enda hafði hún lengi haft stór orð uppi um það. Þegar á reyndi voru stjórnarflokkarnir aftur á móti svo sundraðir að þeir gátu ekki komið sér saman innbyrðis og því síður við stjórnarandstöðuna. Svipaðar aðstæður eru uppi nú. Stjórnarandstaðan getur verið á móti en hefur ekki lausnir sem samstaða er um fremur en ríkisstjórnin.

Við þessar aðstæður væri sennilega skynsamlegast að gera vopnahlé. Setja mætti bráðabirgðaákvæði í gildandi lög um úthlutun aflaheimilda í makríl næstu tvö árin eða út þetta kjörtímabil. Það myndi alltént gefa mönnum svigrúm til að leita lausna í víðara samhengi. Pólitíska klípan er sú að menn vita vel hvað þeir vilja ekki en eru sundraðir um það sem þeir vilja.

Með lengri umhugsunarfresti væri vissulega verið að víkja til hliðar eðlilegum kröfum um stöðugleika til lengri tíma. En  vopnahlé þarf ekki að vera verri kostur en áframhaldandi stríð.

 

 

 

 

 

 

 

Nýjast