Stærsti flokkur Norðurlanda

Stærsti flokkur Norðurlanda

Fyrir nokkrum árum leit út fyrir að hreyfing kennd við pírata gæti orðið nýtt pólitískt fyrirbrigði í nokkrum Evrópulöndum. Loftið hefur alls staðar farið úr þeirri blöðru nema hér þar sem hún hefur þanist út síðustu vikur.

Nú er svo komið að nærri þriðjungur kjósenda lýsir stuðningi við Pírata í könnunum. Ekki er sjálfgefið að þessi stóri hópur kjósenda hafi tekið sér fasta stöðu í herbúðum þeirra. Hvað sem því líður er hér vísbending um miklar breytingar í valdakerfi stjórnmálanna.

Í Vestur Evrópu hafa tiltölulega fáir flokkar fengið meir en þriðjungs fylgi upp á síðkastið. Fylgi Pírata er nærri þeim mörkum. Hlutfallslega eru þeir því með stærri flokkum í Evrópu og stærsti flokkurinn á Norðurlöndum eins og sakir standa.

Rætur stöðugleika hafa víðast hvar í lýðræðisríkjum legið í því að einn eða tveir flokkar hafa notið trausts til þess að mynda pólitíska kjölfestu. Sjálfstæðisflokkurinn gegndi þessu hlutverki lengst af.

Alþingi hefur verið án kjölfestu síðan krónan hrundi síðast. Það ástand hefur endurspeglast afar skýrt í tveimur annars ólíkum ríkisstjórnum. Þótt ýmislegt hafi áunnist í tíð þeirra beggja finna allir fyrir rótleysinu innan þings sem utan.

Fylgið við Pírata getur reynst hverfult. En hitt  er alls ekki óhugsandi að þarna sé að myndast ný kjölfesta í íslenskri pólitík. Og kannski er það beinlínis líklegt.

Ný pólitísk kjölfesta í mótun

Álitamálin eru eigi að síður margvísleg. Í hvaða mæli mun það verða? Og með stuðningi við hverja mun það gerast þegar upp verður staðið?

Píratar eiga nú þrjá þingmenn. Fáir vita með vissu fyrir hvað þeir standa. Vel má líka vera að þeir viti það ekki svo gjörla sjálfir. En út frá hinu má ganga sem vísu að þingmennirnir þrír viti ekki meir en við hin um raunverulegar pólitískar hugmyndir þess mikla fjölda fólks sem lýsir yfir stuðningi við þá.

Margt er vitaskuld á huldu um skoðanir þessarar nýju kjölfestu í pólitíkinni. Um hvað er þessi hópur fólks sammála? Hvert vill hann stefna? Er hann í leit að meira pólitísku raunsæi? Eða vill hann heldur heyra það sem lætur vel í eyrum á líðandi stundu?

Það er mikil pólitísk áskorun að nálgast þennan hóp kjósenda og leita svara við þessum spurningum og mörgum öðrum. Ætla hinir flokkarnir til að mynda að breyta stefnu sinni til að svara kalli þessa hóps? Eða sitja þeir við sinn keip?

 Utanríkismálin eru helsta uppleysiefnið

Eftir kosningarnar 2009 var í fyrsta skipti mynduð ríkisstjórn á lýðveldistímanum sem ekki byggðist á málamiðlun yfir miðjuna. Forysta Samfylkingarinnar færði flokkinn langt til vinstri og skildi eftir tómarúm næst miðjunni. Þegar að hálfnuðu því kjörtímabili kom fram í könnunum að kjósendur höfðu ekki áhuga á að færa Ísland til með sama hætti.

Núverandi ríkisstjórn var mynduð undir merkjum hægri þjóðernispopúlisma. Sjálfstæðisflokkurinn hefur eigi að síður reynt að varðveita ábyrga ímynd í ríkisfjármálum. Það hefur þó ekki dugað til. Með samtengingu við þjóðernispopúlisma Framsóknar hefur Sjálfstæðisflokkurinn einfaldlega fjarlægst miðjuna.

Nú þegar þetta kjörtímabil er hálfnað hefur fylgi ríkisstjórnarinnar hrapað eins og þeirrar síðustu og Framsókn misst tvo þriðju kjósenda sinna. Viljinn til  að  fylgja þjóðernispopúlismanum lengra fram um veg er horfinn.  

Ef merkja má einhverja málefnalega breytingu á þessu kjörtímabili sýnast stjórnarandstöðuflokkarnir horfa heldur meir til vinstri en áður. Sjálfstæðisflokkurinn hefur þar á móti fest sig enn frekar í þjóðernispopúlisma Framsóknar í utanríkismálum og peningamálum. Engin áform sýnast vera um að opna þá stöðu.

Þeir sem lýsa nú yfir stuðningi við Pírata standa þarna mitt á milli.

Þótt dregið hafi úr hugmyndafræðilegum ágreiningi í efnahagsmálum eru þó gjár á því sviði sem erfitt er að brúa milli núverandi póla. Bilið er þó breiðast í utanríkismálunum.

Áður fyrr var samstaða í stórum dráttum um grundvallaratriði utanríkisstefnunnar milli þriggja flokka. Alþýðubandalagið lét ágreining um þau mál hins vegar ekki standa í vegi stjórnarþátttöku. Með hæfilegri einföldun má segja að utanríkisstefnan hafi verið límið í pólitíkinni. Nú er hún helsta uppleysiefnið. Það er afgerandi breyting.

Í þessu ljósi verður fróðlegt að sjá hvernig nýja kjölfestan í pólitíkinni horfir á utanríkismálin og hvernig hún telur skynsamlegast að nálgast ákvarðanir á því sviði. Í fyrstu atrennu snýst sú spurning um hvort þessi stóra kjósendafylking stendur nær ómöguleikakenningunni eða þjóðaratkvæðagreiðslu.

Vandalaust er að geta sér til um það. Hitt er ekki eins auðvelt að ráða í hvernig hópurinn mun beita áhrifum sínum þannig að þess verði vart með varanlegum og uppbyggilegum hætti að ný kjölfesta er að myndast í pólitíkinni þegar dregur nær kosningum. Spurningin er hvort hún mun hafa þau áhrif að unnt verði að mynda stjórn yfir miðjuna á ný.

 

 

 

 

Nýjast