Er írska leiðin betri en sú íslenska?

Er írska leiðin betri en sú íslenska?

Margir telja að leið Íslands út úr hruninu sé sú besta. Fullyrt er að krónan hafi hjálpað okkur á lappirnar aftur. Forsætisráðherra Íslands talaði við vefmiðilinn Politico.com fyrir nokkrum dögum um þetta mál. Þar hrósaði hann happi yfir því að Ísland væri ekki með evru: „Við hefðum meira að segja getað farið í hina áttina og orðið gjaldþrota ríki[...]”. 

Hann hélt áfram og sagði: “Ef allar þessar skuldir hefðu verið í evrum og við hefðum þurft að gera það sama og Írar og Grikkir, og taka ábyrgð á skuldum föllnu bankanna okkar. Það hefði verið skelfilegt fyrir okkur efnahagslega“.  Þess í stað sé Ísland ein helsta velgengnissaga eftirhrunsáranna í heiminum sagði hann að lokum. 

Full ástæða er til að skoða þá staðhæfingu nánar að evran hafi gert Íra gjaldþrota. 

Í samtali við írskan samstarfsaðila minn á ráðstefnu í Munchen í vor barst hrunið og efnahagsbatinn á Írlandi í tal. Ég spurði hvort hrunið á Írlandi hafi komið eins illa niður á fjölskyldunum í landinu eins og raunin varð á Íslandi og hvernig tekist hefði að rétta efnahag Írlands af. 

Félagi minn sagði að Írar tali ekki „hrun“ (e. collapse). Þeir tala um „niðursveiflu“ (e. downturn) sem kom helst fram í auknu atvinnuleysi og lækkun á húsnæðisverði auk hækkunar á skuldum ríkisins. Aðspurður sagði hann að engin stökkbreyting húsnæðislána hefði átt sér stað enda varð ekkert hrun á gengi gjaldmiðilsins þeirra, evrunnar og engin þörf væri á verðtryggingu lána. Hann sagði að alþjóðlega gjaldgengur og stöðugur gjaldmiðill hafi verið lykillinn að snöggri endurreisn Írlands. 

Írska hagkerfið og það íslenska eru að mörgu leyti lík. Bæði eru með um 70% hagkerfisins í þjónustu- og verslunargeirum, hlutur iðnaðar er svipaður, ríkisumsvif eru svipuð og útflutningsatvinnugreinar öflugar. 

Nú hefur írska hagkerfið náð sér að mestu. Nýlegar greinar í Economist og The Guardian staðfesta það. Þar koma eftirfarandi atriði meðal annars fram: 

 • Hagvöxtur á Írlandi er nú um 6%
 • Verðbólga er nánast engin
 • Skuldir írska ríkisins hafa lækkað verulega
 • Erlendar fjárfestingar hafa aukist mjög frá 2010 enda frjálst flæði fjármagns til og frá landinu
 • Atvinnuleysi minnkar hratt og er komið niður fyrir 9% (úr um 15%) og heldur áfram að minnka.
 • Írar hafa tollfrjálsan aðgang að 500 milljón manna markaði í Evrópusambandinu
 • Útflutningsvöxtur er stöðugur
 • Fyrirtæki og ríkisstofanir hafa hagrætt í rekstri og dregið úr kostnaði og þannig gert Írland samkeppnishæfara land.
 • Vextir af húsnæðislánum er að nálgast 3% og fara hratt lækkandi.
 • Verðtrygging lána er óþekkt fyrirbrigði.
 • Írar búa við frjálsan innflutning á landbúnaðarvörum og full samkeppni ríkir á þeim markaði innanlands.
 • Um 80 bankar starfa á Írlandi í mikilli samkeppni í vöxtum og þjónustu. Þar af eru um 35 erlendir bankar.
 • Engin gjaldeyrishöft hafa verið á Írlandi eftir að evran var tekin þar upp sem gjaldmiðill, þannig eru Írar með samkeppnishæfan gjaldmiðil sem hægt er að nota í viðskiptum um allan heim
 • Þjóðarframleiðsla á mann með tilliti til kaupmáttar (PPP) er 16,3% meiri á Írlandi en á Íslandi
 • Skuldir írska ríkisins fara hraðlækkandi 

Niðurstaða mín er þessi:

 1. Evran gerði Írland ekki gjaldþrota.
 2. Evran hefur hjálpað Írum að ná sér eftir niðursveifluna.
 3. Forsætisráðherra okkar þarf að kynna sér málin betur áður en hann lýsir yfir gjaldþroti nágrannaþjóða.

Nýjast