Hefur sigurður ingi kjark til að rjúfa stjórnarsamstarfið?

Vefmiðillinn Miðjan veltir því fyrir sér hvort Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknar hafi kjark til að slíta stjórnarsamstarfinu á næstunni og krefjast kosninga. Miðjan telur að Framsókn sé niðurlægð í stjórnarsamstarfinu og að ráðherrar flokksins séu nánast farþegar í ríkisstjórninni frekar en gerendur.

Bent er á að Sigurður Ingi hafi fengið minna ráðuneyti en dæmi séu til um formann flokks í stjórnarsamstarfi. Auk þess hafi sjálfstæðismenn svínbeygt hann og látið hann skipta algerlega um skoðun varðandi vegaskatta. Sigurður Ingi var algerlega á móti vegatollum fyrir kosningar og hét kjósendum því að þeim yrði ekki beitt. En nú talar hann fyrir skattlagningu til að hraða framkvæmdum.

Miðjunni finnst að Jón Gunnarsson ráði enn för í samgönguráðuneytinu og að Sigurður Ingi sé hart leikinn og niðurlægður af Bjarna Benediktssyni og mönnum hans. Miðjan telur einnig að Bjarni sé með yfirfrakka á Katrínu Jakobsdóttur en Unnur Brá Konráðsdóttir hefur stöðu í forsætisráðuneytinu - augu og eyru Bjarna þar. “Stóri bróðir” fylgist með þér!

Þegar staða Framsóknar í ríkisstjórninni er skoðuð þá blasir einnig við að Ásmundur Einar Daðason er tifandi tímasprengja vegna myndbands sem farið hefur um netið eins og logi um akur. Það hlýtur að verða opinberað fljótlega eins og DV reyndi. Því var kippt út. Hvers vegna?
Þegar myndbandið verður opinberað mun félags-og jafnréttisráðherra ekki skora margar þriggjastiga körfur eftir það!

Þá er bent á að Lilja Alfreðsdóttir hefur ekki komið neinu í verk á 13 mánuðum sem menntamálaráðherra. Hún lofaði að fella strax niður virðisaukaskatt af bókum en hefur svikið það. Boðar hinsvegar óljóst sjóðasukk um málið sem ætlað er að skila einhverju síðar. Ekki strax eins og lofað var. Sama gildir um ætlaðan stuðning við smærri fjölmiðla. Það er allt óljóst nema að pólitísk nefnd verður með krumlurnar í styrkveitingum - ef til þeirra kemur einhvern tíman.

Framsókn getur beðið áfram og kramist enn meira undir í stjórnarsamstarfinu eða freistað þess að slíta strax á meðan Miðflokkurinn stendur enn veikur eftir Klausturruglið. Kosningar fljótlega hlytu að leika Miðflokkinn grátt. Framsókn gæti grætt á því.

En pólitískt minni kjósenda er stutt. Eftir nokkra mánuði verður Sigmundur Davíð búinn að ná vopnum sínum og þá væri tækifæri Framsóknar farið forgörðum.

Geri Sigurður Ingi ekkert núna þá heldur niðurlæging Framsóknar áfram innan ríkisstjórnarinnar. Þá mun fylgi flokksins dala að nýju niður í eins stafs prósentutölu.

Því er spáð hér að Framsókn hafi ekki kjarkinn og muni bara bíða nöturlegra örlaga sinna.