Uppskrift: Guðdómlega gott Quesidillas á mexíkóska vísu uppáhalds hjá Önnu Eiríks - „Guðdómlegt og súper einfalt“

Matarást Sjafnar

Uppskrift: Guðdómlega gott Quesidillas á mexíkóska vísu uppáhalds hjá Önnu Eiríks - „Guðdómlegt og súper einfalt“

Guðdómlega gott Quesidillas
Guðdómlega gott Quesidillas

Í tilefni þess að á dögunum kom út bókinni „Vinsælustu uppskriftirnar frá vinsælum matarbloggurum“ þar sem sex matgæðingar og sælkerar í íslenska matarbloggaraheiminum leiða saman hesta sína hefur Sjöfn Þórðar fjölmiðlakona verið að heimsækja þær og fá þær til að ljóstra upp sínum uppáhalds vetrarrétti og sögunni bak við hann.  Þær eru sex talsins og Sjöfn er búin að heimsækja tvær þeirra, Maríu Gomez og Berglindi Hreiðars. Sú þriðja í röðinni af sex er Anna Eiríks matar- og sælkerabloggari og þjálfari með meiru. 

Anna Eiríks er einstaklega lagin við að elda ljúffengan og hollan mat í takt við hollt og heilbrigt líferni. Hún er meistari í að samtvinna fjölskyldulíf, matargerð og æfingar með góðri útkomu fyrir heibrigðan lífstíl. Hún er sannfærð um það að hægt er að borða ljúffengan mat samhliða því að stunda reglubundna hreyfingu sem gerir lífið litríkara og skemmtilegra.

Áttu þér þinn uppáhalds vetrarrétt?

„Við fjölskyldan höldum mikið upp á mexíkóskan mat og þessi réttur er í miklu uppáhaldi því hann er afar bragðgóður og einfaldur.  Krökkunum og okkur þykir hann frábær. Við höfum alltaf „Taco Tuesday“ þema á þriðjudögum en leikum okkur þá með allskonar útfærslur af mexíkóskum mat sem allir elska og er þetta ein af okkar útfærslum.  Það má því segja að minn uppáhalds vetrarréttur sé ekta mexíkóskt „Quesidillas.“

Eyðir þú meiri tíma í eldhúsinu á veturinn fremur enn á sumrin?

„Ég hugsa já að ég eyði meiri tíma í eldhúsinu á veturna en sumrin en ég viðurkenni að ég eyði almennt ekki miklum tíma í eldhúsinu nema ég sé að brasa eitthvað með krökkunum eins og að baka eða gera góðan brunch en okkur þykir það mjög skemmtilegt. Föstudags pizzakvöldin okkar eru frekar heilög allt árið um kring en þau verða örlítið meira kósí og skemmtileg á veturna finnst mér því við gefum okkur ennþá meiri tíma í þau heldur en á sumrin sem gerir þau einstaklega notaleg.“

Hvað er það sem þér finnst skemmtilegast við veturinn?

„Ég held mikið upp á sumar og sól en finnst samt margt mjög kósý og skemmtilegt við veturinn. Kveikja á kertum, kúra undir teppi og horfa á góða mynd, fara í heita pottinn í ísköldu veðri og horfa á norðurljósin og svo má ekki gleyma skíðasportinu sem við fjölskyldan höldum mikið upp á. Það fyrir mér er skemmtilegast við veturinn, fara á skíði með fjölskyldunni og ég er aðeins farin að prófa gönguskíði og fjallaskíði sem mér finnst mjög skemmtilegt líka og svo má ekki gleyma jólunum, uppáhalds árstíma barnanna sem allir hlakka mikið til þannig að það eru klárlega margir góðir kostir við veturinn að mínu mati,“ segir Anna og er orðin spennt fyrir því sem koma skal.

„Þetta „Quesidillas“ er guðdómlegt og súper einfalt. Ég steiki kjúkling og krydda vel og smjörsteiki svo sveppi og raða þessu á helminginn af Tortilla pönnuköku ásamt gulum baunum, set vel af rifnum mozzarella osti yfir og grilla í mínútugrilli (má einnig grilla í ofni eða úti á grilli).  Best er að bera fram með fersku salati og heimatilbúnu lárperumauki en sýrður rjómi, salsasósa eða ostasósa passa einnig vel með. Það skemmtilega við þennan rétt er að hver og einn fjölskyldumeðlimur gerir sinn rétt sjálfur og getur sett það sem hann vill á pönnukökuna. Algjör snilldar réttur sem tekur enga stund að gera og skemmtileg fjölskyldustund í leiðinni,“ segir Anna og er alsæl með þessa kærkomnu fjölskyldustund.

Quesidillas -  Taco Tuesday að hætti Önnu Eiríks og fjölskyldu

fyrir 4 til 6

4-6 stórar tortilla pönnukökur

1 bakki ferskar kjúklingabringur

Krydd eftir smekk – til dæmis fajitast kjúklingakrydd 

(uppáhaldið mitt er 1 tsk. karrí og vel af Herbamare jurtasalti á móti 1 msk af sýrðum rjóma)

1 box sveppir - smjörsteiktir og kryddaðir með salti og pipar

Rifinn mozzarella ostur

1 dós gular baunir

Lárperumauk eða sósur að eigin vali, sýrður rjómi, salsasósa eða ostasósa

Ferskt salat að vild

Undirbúningur fyrir þennan rétt tekur um það bil tuttugu mínútur. Byrjið á því að skera bringurnar og steikja á pönnu og kryddið að vild. Smjörsteikið svo sveppina og kryddið vel með salti og pipar. Setjið kjúkling og sveppi ásamt gulum baunum og rifnum osti á helminginn af pönnukökunni, lokið og setjið í mínútugrill þar til osturinn hefur bráðnað. Berið fram með fersku salati og til að fullkomna réttinn, með fersku lárperumauki.

 Njótið vel.

Myndir úr safni Önnu Eiríks

Nýjast