Ómótstæðilega freistandi Brownies með Oreo kexi ómissandi í útileguna

Matarást Sjafnar

Ómótstæðilega freistandi Brownies með Oreo kexi ómissandi í útileguna

Brownies með Oreo kexi freista sælkerans
Brownies með Oreo kexi freista sælkerans

Framundan er mesta ferðahelgi landsmanna, Verzlunarmannahelgin, og þá er gott að byrja snemma að undirbúa ljúffenga bita og kræsingar til að hafa með í för hvert sem ferðinni er heitið.  Í tilefni ferðahelgarinnar miklu hitti Sjöfn Þórðar, sælkera- og matarbloggarann Unu Dögg Guðmundsdóttur og fékk hana til að gefa okkur eina syndsamlega ljúffenga uppskrift af sætum bitum sem eru ómissandi í útileguna.  Una Dögg er mikil áhugamanneskja um mat og bakstur og hefur lengi verið að prófa sig áfram að búa til uppskriftir, sérstaklega þegar kemur að bakstri.

„Nýverið lét ég verða af því að opna heimasíðuna unabakstur.is, fékk aðstoð frá systur minni að hanna síðuna og þar ætla ég að deila uppskriftum og skemmtilegum hugmyndum með fólki.  Ég hafði lengi ætlað mér að opna bloggsíðu til að halda saman uppskriftum á einum stað. Ég á orðið smá fylgjendahóp sem er svo skemmtilegt og þarna getur fólk farið inn á síðuna og fundið góðar uppskriftir fyrir hin ýmsu tilefni,“ segir Una Dögg sem er hin ánægðasta með útkomuna á nýju bloggsíðunni sinni.

Ein af uppskriftunum hennar Unu Daggar sem hefur slegið rækilega í gegn er einmitt þessi ómótstæðilega ljúffenga Brownies með Oreo kexkökum.  „Það er tilvalið að skella í slíka uppskrift, skera niður og smella í box og taka með sér í útileguna,“ segir Una Dögg og segir jafnframt að þessir bitar hverfi af diskunum jafnóðum og þeir eru bornir fram.

Brownies með Oreo kexkökum

250 g smjör

3,5 dl sykur

2 dl kakó

4 tsk vanillusykur

4 egg

3 dl hveiti

1 pakki Oreo kex

Byrjið á því að stilla ofninn á 180° gráður við undir- og yfirhita. Bræðið smjörið í potti og leyfið því aðeins að kólna áður en þið haldið áfram, passið að það sé ekki sjóðandi heitt. Sykri, kakó, vanillusykri og eggjum bætt út í pottinn og hrærið saman. Sigtið hveitið saman við og hrærið vel í blöndunni. Gott er að smyrja ferkantað form að innan og hella deiginu ofan í. Áður en kakan er sett í ofninn er Oreo kex kökum stungið ofan í deigið, gott að brjóta kexkökurnar niður sem og setja þær heilar saman við. Bakið við 180°gráður í um það bil 20-22 mínútur (kakan á að vera dálítið blaut þegar hún er tekin út), kakan er látin kólna í forminu. Fallegt er að skera svo kökuna í minni bita, skreyta með berjum og jafnvel að sigta smá flórsykur yfir rétt áður en bitarnir eru bornir fram. Ef bitarnir eru teknir með í útilegu er vert að skera kökuna í bita og setja þá í gott ílát án þess að skreyta. Þá er hægt að grípa í einn og einn bita þegar hungrið kallar.

Njótið vel.

 

Nýjast