Íbúðaverð hefur sjöfaldast á 20 árum

Einn reyndasti fasteignasali landsins er gestur Heimilisins:

Íbúðaverð hefur sjöfaldast á 20 árum

Verð á íbúðum hér á landi hefur sjöfaldast í verði á síðustu 20 árum, að því er fram kemur í viðtali við Ingólf Geir Gissurarson, fasteignasala hjá Valhöll í þættinum Heimilið á Hringbraut, sem frumsýndur var í gærkvöld, en hann er einn reyndasti fasteignasali landsins með áratugareynslu í faginu.

Í þættinum rifjar hann upp þegar fermetraverðið fór yfir 100 þúsund krónur um síðustu aldamót, en þá þótti mönnum það vera með ólíkindum að verðið færi yfir þann háa hjalla. Nú, næstum 20 árum seinna er algengt fermetraverð á höfuðborgarsvæðinu 700 þúsund og mörg dæmi þess að það nálgist eina milljón í miðborg Reykjavíkur.

Ingólfur huggar þó áhorfendur með þeim orðum að Reykjavík eigi enn langt í land með að toppa Lundúni í þessum efnum, en þar eru dæmi þess að fermetraverð í miðborginni fari vel yfir tvær milljónir króna, sem merkir að 100 femetra ibúð á góðum stað í höfuðstað breska heimsveldisins kosti á þriðja hundrað milljónir króna.

Ingólfur gagnrýnir lóðaskortsstefnu borgaryfirvalda og segir þau alls ekki koma til móts við þarfir ungs fólks sem vill eignast litla íbúð sem komi því fyrir á fasteignamarkaði, útlánaveislan hafi snarhækkað íbúðaverð fyrir hrun, en eftir það hafi lóðaskortsstefnan ýtt verðinu enn ofar, ásamt stórauknum ferðamannastraumi sem hafi þar líka sitt að segja.

Heimilið er endutrsýnt í dag, en þátturinn er einnig aðgengilegur á vefnum hringbraut.is    

 

Nýjast