Yfir 300 manns ræða breytingar á stjórnarskrá íslands í laugardalshöllinni

Yfir þrjú hundruð manns sitja nú í Laugardalshöllinni að ræða um stjórnarskrá Íslands. Fólkið er kemur frá öllum hornum Íslands og rökræðir um breytingar á stjórnarskránni. Er því skipt upp í hópa sem ræða svo saman um það málefni sem sett er á dagskrá af skipuleggjendum.
 
Hóparnir eru til dæmis búnir að ræða um stöðu forseta Íslands, þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðarfrumkvæði, landsdóm og ákæruvald Alþingis  Á morgun áætlað að tala um kjördæmaskipan. Samkvæmt dagskránni verður svo endað á að ræða um alþjóðlegt samstarf og framsal valdheimilda. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands sér um að stýra rökræðunum og segir stofnunin að rökræðukönnun, eins og sú sem á sér núna stað í Laugardalshöllinni, sé aðferð til að dýpka rannsókn á viðhorfum almennings frá því sem hefðbundin skoðanakönnun bjóði upp á.
 

Jón Ólafsson, prófessor og forsvarsmaður öndvegisverkefnisins segir að mörgum hafi gramist hvernig vinna Stjórnlagaráðs rann út í sandinn í meðförum Alþingis sem greiddi aldrei atkvæði um frumvarp ráðsins.

„Lítill vafi er hins vegar á því að sú vinna og almenna umræða sem þá fór fram hefur mótað skilning þjóðarinnar á mikilvægustu stjórnarskrárbreytingum. Ekkert af því sem tekist er á við í þessu ferli stríðir gegn tillögum Stjórnlagaráðs og umræða um þessi mál er enn þá undir sterkum áhrifum af vinnu ráðsins.“

Í minnisblaði forsætisráðherra sem lagt var fram í janúar 2018 er endurskoðun stjórnarskrárinnar skipt í tvennt. Á þessu kjörtímabili er tekist á við sjö þætti: Forsetaembættið, náttúruauðlindir og umhverfi, ákvæði um breytingar á stjórnarskránni, framsal valds vegna alþjóðasamvinnu, þjóðaratkvæðagreiðslur og þjóðarfrumkvæði, kjördæmaskipan og atkvæðavægi og loks Landsdóm.