Vill nýju stjórnarskrána upp úr skúffunni: skaut föstum skotum á forsætisnefnd og ásmund

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir vill nýju stjórnarskrána upp úr skúffunni og þá gagnrýndi hún forsætisnefnd harðlega og skaut á Ásmund Friðriksson þingmann Sjálfstæðisflokksins. Þórhildur Sunna hóf þó ræðu sína á að vitna í aðfararorð að frumvarpi stjórnlagaráðs að stjórnskipunarlögum sem þjóðin samþykkti að skyldi liggja til grundvallar að nýrri stjórnarskrá fyrir Ísland. Þar sagði meðal annars:

 „Við sem byggjum Ísland viljum skapa réttlátt samfélag þar sem allir sitja við sama borð. Ólíkur uppruni okkar auðgar heildina og saman berum við ábyrgð á arfi kynslóðanna, landi og sögu, náttúru, tungu og menningu. [...] Við viljum efla friðsæld, öryggi, heill og hamingju á meðal okkar og komandi kynslóða. [...] Í þessu ljósi setjum við okkur nýja stjórnarskrá, æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“

Benti Þórhildur Sunna á að frumvarpið hefði orðið til vegna trúnaðarbrests sem varð milli þings og þjóðar í kjölfar bankahrunsins. Þórhildur Sunna sagði:

„Þá vöknuðu margir upp við vondan draum og sáu að stjórnmálamenn höfðu ekki farið vel með það umboð sem þeim hafði verið veitt til að starfa í þágu þjóðarinnar. Traust á stofnunum samfélagsins hrundi, og sumar þeirra hafa ekki enn borið þess bætur. Ein þessara stofnana er Alþingi, löggjafi Íslands, sem hafði, og hefur enn, það hlutverk að innleiða nýja stjórnarskrá, nýjan samfélagssáttmála sem æðstu lög landsins, sem öllum ber að virða.“

Sagði Þórhildur Sunna að flokkarnir sem mynda ríkisstjórn hefðu allir haft tækifæri til að tryggja að farið yrði að vilja þjóðarinnar og innleiða nýja stjórnarskrá.

„Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn völdu að stinga stjórnarskránni ofan í skúffu þegar þeir tóku við stjórnartaumunum árið 2013. Vinstri-hreyfingin Grænt framboð valdi svo að mynda ríkisstjórn með þessum flokkum, sem hafa sýnt það í verki að þeir standi í vegi fyrir kröfu þjóðarinnar um nýjan samfélagssáttmála, árið 2017,“ sagði Þórhildur Sunna og bætti við:

„Og því miður er staðan sú árið 2019, að meirihluta þessa þings finnst ásættanlegt að geyma nýju stjórnarskrána áfram ofan í skúffu og semja frekar sín á milli um einstök ákvæði frumvarpsins. Í besta falli lýsir þessi nálgun grundvallarmisskilningi á eðli stjórnarskrárinnar sem samfélagssáttmála og þjóðinni sem stjórnarskrárgjafanum, sem setur okkur, löggjafanum, leikreglur lýðræðisins. Í versta falli lýsir hún sjö ára djúpstæðri andstöðu valdhafa við lýðræðið og mikilli óvirðingu þingsins gagnvart því umboði sem þjóðin veitir því.“

Þá sagði Þórhildur Sunna að engin biturð væri í gagnrýni hennar, heldur vildi hún hvetja þingmenn til að sýna hugrekki og þor og breyta ríkjandi valdakerfi. Hún bætti við að Píratar horfðu einnig til þess að Alþingi myndi aftur endurheimta traust þjóðarinnar.

„Því vissulega þarf hugrekki til þess að takmarka sitt eigið vald. Það þarf þor til að standa með vilja þjóðarinnar þegar hann stangast á við eigin hagsmuni. Og það þarf bjartsýni til þess að takast á við þær breytingar sem ný stjórnarskrá hefur í för með sér. Bjartsýni og bjargfasta trú á að þjóðin viti best hvernig landinu skal stjórnað, og hvernig takast skuli á við nýja tíma í síbreytilegum heimi.“

Þórhildur Sunna skaut svo föstum skotum á forsætisnefnd sem úrskurðaði fyrr á árinu að hún hefði brotið lög siðanefndar með því að tjá sig um óheyrilegan akstur Ásmundar Friðrikssonar um kjördæmi sitt. Þórhildur Sunna sagði:

„Við sjáum að það er borin von að halda að hægt sé að efla virðingu fyrir þinginu með því að sussa á gagnrýnisraddir og sópa óþægilegum staðreyndum undir teppið. Það viðhorf forsætisnefndar Alþingis, að það rýri traust til Alþingis að þingmenn tali opinskátt um spillingu í sínum röðum á sama tíma og hún leggur blessun sína yfir að þingmenn nýti sér almannafé til þess að sækja afmæli og jarðarfarir er úrelt og mun senn heyra sögunni til. Ég er einkar bjartsýn á að sú spá mín rætist.“