Vilja ekki flugeldasýningu á menningarnótt: sterk skilaboð og fordæmi að sleppa flugeldasýningunni

„Það er rætt um hvort hætta eigi að halda flugeldasýningu í bænum í lok dagskrár menningarnætur. Á Dönskum dögum í Stykkishólmi hafa þeir slaufað flugeldasýningu vegna umhverfisverndar.“

Þetta skrifar Egill Helgason en honum fannst ekki mikið til flugeldasýningarinnar á Menningarnótt koma. Guðmundur Andri Thorsson þingmaður Samfylkingarinnar tekur í svipaðan streng. Egill segir að það hafi verið til umræðu í borginni að hætta flugeldasýningunni en það á þó eftir að taka ákvörðun. Segir Egill að flugeldasýning sé ekki nauðsynleg fyrir hátíðina. Þá fannst Agli sýningin vera smá í sniðum:

„Mér varð að orði að þetta væri eins og meðalheimili í Garðabænum skyti upp á gamlárskvöld.“

Guðmundur Andri Thorsson sagði um sýninguna: „Ætti kannski að fara að endurskoða þetta með flugeldasýninguna í lokin? Stykkishólmur gerir þetta - að sleppa fýrverkeríinu á sinni bæjarhátíð vegna meðvitundar um ástand heimsins.

Ég veit að þetta er bara smáræði samanborið við meðalstjórnarmann í KR í góðum gír á nýársnótt – en það myndu felast sterk skilaboð í því að sleppa flugeldasýningunni, og fordæmi.“

Egill bætir við: „Það mætti að skaðlausu sleppa þessu á næsta ári.“