Valdhafar í tel avív ganga á lagið og fangelsa heila þjóð - forseti así vill algera sniðgöngu ísraels

Þær eru ekki fallegar lýsingar Drífu Snædal, forseta Alþýðusambands Íslands og Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar á aðstæðum Palestínumanna innan um 700 kílómetra langan ísraelskan múr og víggirðingar, en 20 forystumenn úr ASÍ eru nýkomnir heim úr nokkurra daga ferð til Vesturbakkans.

Fólkinu þar er ekki einasta gert að borga himinháar upphæðir, eða mútur, til að fá atvinnuleyfi heldur þarf það að bíða tímunum saman til að komast í gegnum hliðið á ólöglegum múrnum á leið sinni til og frá vinnu - og tapar fyrir vikið öllum sínum frítíma, en svo fær það miklu minna kaup en Ísraelsmenn ef það nær sér í einhverja vinnu Ísraelsmegin í landinu.

Ástandið á Gasa sé orðið skelfilegt, svo ekki sé meira sagt, en landræningjar leiki Vesturbakkann líka svo grátt að ástandið sé ekkert að verða skárra þar. Skera þurfi upp herör gegn þessum níðingsskap - og sniðganga dugi þar helst, sama leið og farin var vegna kynþáttaaðskilnaðarstefnu gömlu stjórnvaldanna í Suður-Afríku á sínum tíma. Og Drífa, forseti ASÍ kallar eftir fullri sniðgöngu, hún sé hlynnt róttækni í þeim efnum - og muni leggja það fyrir Alþýðusambandsforystuna að íslensk verkalýðshreyfing beiti sér af hörku í þeim efnum; sniðgangi á borði en ekki bara orði.

Allt þetta og meira til í frétta- og umræðuþættinum 21 í kvöld.