Uppskrift: trufluð pizza með kartöflum og trufflu aioli sem bræðir bragðlaukana

Í tilefni þess að á dögunum kom út bókinni „Vinsælustu uppskriftirnar frá vinsælum matarbloggurum“ þar sem sex matgæðingar og sælkerar í íslenska matarbloggaraheiminum leiða saman hesta sína hefur Sjöfn Þórðar fjölmiðlakona verið að heimsækja matgæðingana og fá þá til að ljóstra upp sínum uppáhalds vetrarrétti og sögunni bak við hann. Um er að ræða sex konur og Sjöfn er búin að heimsækja fjórar þeirra, Maríu Gomez, Berglindi Hreiðars,  Önnu Eiríks og Lólý. Sú fimmta í röðinni af sex er Hildur Rut Ingimarsdóttir matar- og sælkerabloggari með meiru sem hefur mikið dálæti af avókadó, trufflum og pizzu í matargerð.

Hildur Rut er ein af okkar vinsælu matar- og sælkerabloggurum sem hefur verið að gera það gott á síðastliðinum árum.  Hildur Rut gaf meðal annars út matreiðslubókina Avocado fyrir jólin árið 2016 sem naut mikill vinsælda hjá lesendum. Henni er margt til lista lagt og hefur mjög gaman að því að baka og grillar pizzur með ýmsum samsetningum og nýta avókadó með margvíslegum hætti í matargerð.

Áttu þér þinn uppáhalds vetrarrétt? 

„Það eru svo margir réttir í uppáhaldi hjá mér að mér finnst erfitt að velja einn rétt sem ber af. En ætli það sé ekki svokallaður „comfort food“ sem er svo notalegt að gera á veturna. Risotto, tacos og pizza eru í miklu uppáhaldi hjá okkur fjölskyldunni. Það er svo skemmtileg hefð að gera pizzuna saman sem er frábær fjölskyldustund og fær sonur minn oft að gera sína eigin pizzu. En þessi pizza er samt í allra uppáhaldi en hún er með kartöflum, klettasalti og trufflusósu.“ 

Hver er sagan bak við þessa trufflu pizzu?

„Innblásturinn af þessari dásamlega góðu pizzu er pizza á pizzastaðnum á Hverfisgötu 12. En sá staður er hættur og var í miklu uppáhaldi hjá mér. Hans verður sárt saknað. Við fórum margoft á þennan stað til að panta okkur pizzuna. Þannig að mér fannst tilvalið að reyna að útbúa pizzuna heima og hún gefur henni ekkert eftir. Auðveld í bígerð og sérlega góð. 

Eyðir þú meiri tíma í eldhúsinu á veturinn fremur enn á sumrin?

Já ég eyði meiri tíma í eldhúsinu á veturna. En ástæðan er að sumrin fara oft í ferðalög og fleira hjá mér sem gerir það að verkum að ég eyði minni tíma þar. En þegar ég er heima þá eyði ég miklum tíma í eldhúsinu sem er einn uppáhaldsstaðurinn minn.“

Hvað er það sem þér finnst skemmtilegast við veturinn?

„Það besta við veturna eru kertaljós, huggulegheit og elda góðan mat í skammdeginu. En ég verð að segja að mér finnst jólin skemmtilegust við veturinn. Kerti, jólaseríur og skreytingar lýsa upp skammdegið. Bakstur með börnunum mínum og allar yndislegu samverustundirnar með fjölskyldu og vinum. Þessi tími er svo dásamlegur,“ segir Hildur Rut og er full tilhlökkunnar.

Pizza með kartöflum og trufflu aioli

12 tommu pizza

200 g pizzadeig (hægt að gera sitt eigið eða kaupa tilbúið í matvöruverslun eða bakaríi).
6-8 kartöflur
3 msk. olífuolía
2 hvítlauksrif
3-4 msk. smjör
6-8 kartöflur
3 skarlottulaukar
2 hvítlauksrif
rifinn mozzarella
2 msk. steinselja
klettasalat
Truffle aioli frá Stonewall Kitchen

Byrjið á því að skera kartöflurnar í sneiðar. Dreifið þeim á smjörpappírsklædda bökunarplötu.  Hrærið einu pressuðu hvítlaukrifi við olíuna og penslið kartöflurnar með blöndunni. Saltið og piprið kartöflurnar eftir smekk og bakið þær í 20 mínútur við 190°C í ofni.  Steikið skartlottulaukinn upp úr örlitlu smjöri. Bætið við einu pressuðu hvítlauksrifi og restinni af smjörinu.  Fletjið deigið út og penslið eða smyrjið það með smjörblöndunni.  Dreifið rifnum mozzarella og raðið kartöflunum ofan á.  Dreifið steinseljunni og bakið í 12-15 mínútur við 190°C hita. Toppið að lokum pizzuna með klettasalati og trufflu aioli.

Verði ykkur að góðu.