Unninn matvæli líkleg orsök stöðnunar í þyngdartapi - ragga nagli - 250kcal próteinbar í raun 300 kcal

Ragga Nagli sálfræðingur og einkaþjálfari sem er þekkt fyrir að deila heilbrigðum lífsstíl með fylgjendum sínum segir unnin matvæli geta verið orsök þess að fólk í átaki nái ekki markmiðum sínum.

„Á áttunda áratugnum varð sprenging í matvælaiðnaði og úr fabrikkum á Vesturlöndum streymdu matvæli í álpappírsumbúðum, pappapakka og plast sem áttu að flýta fyrir snæðingi og eldamennsku,“ segir Ragga í nýjum pistli á heimasíðu sinni.

Nefnir Ragga meðal annars Seríos, Böggles, örbylgjudinner, skinkubréf, dósamat, djúsþykkni og kex.

„Við sem ólumst upp á þessum tíma byrjuðum langflest daginn á Seríósi og heilu matskeiðunum af sykri.
Grilluð samloka með skinku og osti í skólanum skolað niður með Svala. Horfðum á Nágranna eftir skóla yfir Hómblest pakka og Trópí. Mamma að vinna langt frameftir svo 1944 kjötbollur var skítaredding kvöldsins,“ segir Ragga.

Þá greinir hún frá því að sé fólki annt um heilsuna að þá sé ekki ráðlagt að borða mikið af unnum mat. Hann sé stútfullur af sykri, aukaefnum, salti og fitu.

„Ef þú ert að tálga lýsi af skottinu en mörin haggast ekki þá gæti hnífurinn í kúnni verið mataræði sem samanstendur að miklu leyti af unnum mat. Því fitutap snýst að mestu leyti um innbyrtar hitaeiningar.

Matvælaeftirlit Bandaríkjanna leyfir 20% svigrúm norður eða suður í hitaeiningum. Og oftar en ekki nýta fyrirtæki sér það til hins ítrasta og þrýsta niður á við eins og þeir mögulega geta því það hljómar mun betur í eyrum á grunlausum pöpulnum.

Misreikna um fleiri hundruð hitaeiningar á dag

Sem þýðir að prótínbar sem segir 250 kcal á miðanum getur verið að þú sért í raun að slurka 300 kaloríur,“ segir Ragga.

Segir hún að ef stór hluti daglegs mataræðis sé unnin matur þá gæti fólk verið að misreikna um fleiri hundruð hitaeiningar á dag. Það gæti útskýrt stöðnun.

„Það er mun nákvæmara að vigta kjúklingabringu og hrísgrjón og innbyrða réttar hitaeiningar fyrir fitutap,“

Þá greinir Ragga frá rannsókn sem gerð var á mataræði fólks þar sem tveimur hópum var skipt upp og öðrum þeirra var veittur ótakmarkaður aðgangur að óunnum mat í tvær vikur og hinum unnum mat í tvær vikur. Magni kolvetna, próteina og fitu var stjórnað og eftir tvær vikur skiptu þátttakendur um hópa.

„Hópurinn sem borðaði unnar vörur innbyrti 500 hitaeiningum meira en hópurinn sem borðaði heilar óunnar afurðir. Það eru 3500 aukalegar hitaeiningar á viku sem jafngildir hálfu kílói af líkamsfitu. Þeir borðuðu hraðar en hinir sem gaf líkamanum ekki tíma til að losa út leptín og gefa merki um að hætta að borða. Unnin matvara er oft hönnuð þannig að við þurfum að tyggja minna svo það er hægt að gúffa niður á núlleinni,“ segir Ragga um niðurstöður rannsóknarinnar.

Unninn matvara hönnuð með græðgi í huga

Segir hún unninn mat hannaðan með það í huga að fólk vilji borða meira af honum.

„Það eru heilu rannsóknarstofurnar sem skoða sérstaklega hvernig megi pimpa innihaldið þannig að það taki bragðlaukana í gíslingu og höndin færist frá poka að munni á hraða örbylgjunnar... í bókstaflegri merkingu.“

Segir Ragga að hvort sem fólk séu grænkerar eða kjötætur, þá sé óunninn fæða alltaf betri.

„Ef þú vilt tálga af þér þá ertu alltaf best settur með að 80-90% komi úr mat sem hefur engan miða. Mat sem líkaminn kann að ferla og melta. Innihald sem kom forfeðrum okkar á legg og stuðlaði að þróun mannkyns. Restin af hýrunni í buddunni getur þá styrkt kapítalisma í fabrikkumat.“