Unicef hefur áhyggjur af aðgengi umsækjenda um alþjóðlega vernd að heilbrigðisþjónustu á íslandi

„Í ljósi nýlegra frétta af brottflutningi fjölskyldu úr landi bendir UNICEF á Íslandi stjórnvöldum á skyldu þeirra til að meta það sem barni er fyrir bestu þegar ákvarðanir eru teknar. Á þetta við um allar ákvarðanir, um öll börn, á öllum stjórnsýslustigum og við allar aðstæður.“

Þetta kemur fram í tilkynningu sem UNICEF á Íslandi sendi frá sér í kvöld. UNICEF telur að brottflutningur sem þessi geti haft varanleg áhrif á líf og þroska barns.

„Brottflutningur vegna ákvarðana sem byggja á Útlendingalögum felur í eðli sínu nauðung sem getur haft varanleg áhrif á líf og þroska barns, ef illa er að málum staðið. UNICEF á Íslandi hvetur embætti Ríkislögreglustjóra til þess að endurskoða verklag við brottflutning fjölskyldna og fræða starfsfólk um réttindi barnsins. Starfsfólk UNICEF býður fram aðstoð við slíka fræðslu og samtal um framkvæmd laga og reglna er varða börn sem flutt eru nauðug úr landi.“

Þá lýsir UNICEF yfir stuðningi við þá ákvörðun Landlæknis og dómsmálaráðherra að skoða frekar brottflutninginn. 

„Þá lýsir UNICEF yfir stuðningi við fyrirætlanir dómsmálaráðherra og Landlæknis að kanna nánar fyrrnefndan brottflutning. UNICEF hefur áhyggjur af aðgengi umsækjenda um alþjóðlega vernd að heilbrigðisþjónustu á Íslandi. Fyrr á árinu ræddi UNICEF við fjölda barna og foreldra sem sótt hafa um alþjóðlega vernd á Íslandi og kom skýrt fram að aðgengi að heilbrigðisþjónustu er skert og hefur það í einhverjum tilfellum leitt alvarlegs heilsubrests. Að lokum bendir UNICEF á Íslandi enn og aftur á að lög, reglur og samningar, sem tryggja réttindi barna sem sækja um vernd, eru í gildi á Íslandi. Framkvæmd laganna þarf hins vegar að bæta á öllum sviðum, með skýrum skilaboðum ríkisstjórnarinnar um að réttindi barna séu virt á Íslandi.“