Unglingsdrengir í garðabæ tjónuðu bíl helgu - segir foreldrana ljúga að lögreglunni: „við erum með vitni, játningu, myndir en samt er tjónið okkar“

„Í lok júní á þessu ári urðum við fyrir því að unglings drengir hér í Garðabæ fóru uppá bílinn okkar og hoppuðu á þakinu á honum með þeim afleiðingum að toppurinn beyglaðist allur og öll lýsing og annað er ónýtt í bílnum.“

Svona hefst pistill Helgu Sóleyjar Hilmarsdóttur sem varð fyrir því að bíll hennar var tjónaður af hópi unglingsdrengja í Garðabænum. í samtali við Hringbraut segist Helga vilja að upplýsingarnar fari sem víðast. 

„Glöggir nágrannar sáu til drengjanna og höfðu samband við lögreglu. Lögregla kom á svæðið, 3 bílar og ræddu við drengina en þess má geta að lögregluskýrsla hljóðaði uppá annað og hafði lögregla hvorki fyrir því að hafa samband við foreldra drengjanna né svo mikið sem stíga út úr bílunum og kanna tjónið sem hafði orðið af þeirra völdum. Þrátt fyrir að hafa fengið tilkynningu um að það væru unglingsdrengir að hoppa á milli bíla og berja í þá með hjólabrettum,“ segir Helga.

Næsta dag komu Helga og maðurinn hennar að bílnum sínum tjónuðum og höfðu samband við lögreglu. Þeim er bent á að koma og gefa skýrslu næsta virka dag sem þau gera. Þá hafa þau einnig samband við tryggingafélagið sitt sem sækist eftir lögregluskýrslunni.

\"\"

„Lögregluskýrslan hljóðar svo að einn lögreglubíll hafi farið á vettvang og hafi ekki náð neinum en séð á eftir krökkum hlaupa frá vettvangi. Þess má geta að nágrannar mínir náðu mynd af lögreglunni á vettvangi ræða við gerendurna,“ segir Helga sem veltir fyrir sér vinnubrögðum lögreglunnar í þessu tiltekna máli.

Sitja uppi með allan kostnað

„Tryggingafélagið svara því að ekki séu gerendur skráðir í málinu og því sé ekki hægt að sækja tjónið til þeirra,“ segir Helga og greinir frá því að vegna þess að bíllinn var ekki kaskó tryggður þá sitji þau uppi með allan kostnað.

Í ágúst höfðu Helga og eiginmaður hennar ekki heyrt neitt frekar frá lögreglunni svo þau leituðu í hóp fólks sem bjó í hverfinu eftir vitnum.

„Þá bárust okkur myndir af gerendunum sem ullu tjóninu á bílnum, sem voru tilbúin til að gefa skýrslu hjá lögreglu kæmi til þess. Minn talsmaður setti sig í samband við foreldra drengjanna sem vitanlega voru miður sín og ætluðu sér að taka ábyrgð á sínum drengjum og tjóninu sem þeir ullu. Þá kom til samningaviðræðna þar sem að við buðum þeim að borga tjónið eða borga andvirði bílsins (samanborið við sömu árgerð og tegund á bílasölu) sem þótti mjög raunhæft boð.“

Eftir tjónamat var talið að viðgerð á bílnum myndi kosta í kringum 890.000 krónur svo raunhæfast taldist að andvirði bílsins myndi deilast í tvennt og að foreldrarnir myndu deila þeim kostnaði með sér.

„En þarna gerði ég mistök. Ég var alveg viss um að bíllinn okkar væri Toyota Avensis 2006 árgerð og voru það upplýsingar sem eg gaf mínum talsmanni. Búin að vera í okkar eigu í 5 ár og voru slíkir bílar á 450-500 þúsund á bílasölum. En bíllinn er víst 2003 árgerð og fengum við þá ábendingu frá foreldrum drengjanna. Þá fór ég og skoðaði skráninguna á bílnum og það reyndist rétt svo að við lækkuðum að sjálfsögðu upphæðina sem við óskuðum eftir í samræmi við það niður í 350-380.000. Þetta voru heiðarleg mistök að minni hálfu,“ segir Helga.

Foreldrarnir fóru að halda fram fjárkúgun

Það var á þessum tímapunkti sem málið tók viðsnúning og foreldrar drengjanna sem ollu tjóninu fóru að halda því fram að Helga væri að fjárkúga þau.

„Það virðist alveg gleymast að það voru synir þeirra sem að skemmdu bílinn okkar og við sitjum uppi með verðlausan bíl. Á þessum tímapunkti er ákveðið að fara aftur með málið inn á borð hjá lögreglu. Þar eru foreldrar drengjanna kallaðir til í sitthvoru lagi í samningaviðræður. Þess má geta að báðir drengirnir voru búnir að játa á sig verknaðinn og erum við með það skriflega frá föður annars þeirra en hinn játaði fyrir framan föður sinn og talsmann minn og bauðst til að greiða tjónið með fermingarpeningunum sínum,“ segir Helga og heldur áfram:

„Þegar þarna er komið breyta feðgarnir frásögn sinni og tjá lögreglu það að vissulega hafi einhverjir krakkar átt sök á þessu en ekki synir þeirra og að þeir ætli ekki að borga krónu. Þar sem að drengirnir eru 14 ára þá eru þeir ósakhæfir, þessi skemmdarverk falla ekki undir tryggingar þar sem að skemmdarverkin eru af ásettu ráði og drengirnir eru eldri en 10 ára. Eftir sitjum við með skemmdan verðlausan bíl og skemmdarvargarnir sem ollu þessa ganga í burtu án frekari eftirmál.“

\"\"

Segist Helga vita til þess að þessir sömu drengir beri ábyrgð á fleiri tjónum í Garðabænum og hafi einnig komist upp með þau.

„Finnst okkur þetta í lagi? Hvað fordæmi eru foreldrarnir að setja þarna? Að óhæðarleiki borgi sig og þeir geti gengið frá slíkri hegðun án frekari afleiðinga því þeir eru ósakhæfir? Hvað með lögregluna? Eru þetta ásættanleg vinnubrögð hjá þeim? Upplogin lögregluskýrsla og engum upplýsingum safnað um gerendur og hvorki haft samband við foreldra þeirra né eiganda bílsins þrátt fyrir að bíllinn sé á númerum.

Við erum með vitni, skriflega játningu, myndir af gerendum og myndir af lögreglu ræða við gerendur en samt er tjónið okkar.“