Tölva davíðs var hökkuð af „arfavitlausum hakkara“: „því gripið til örþrifaráða.“

Davíð Oddsson greinir frá því í Reykjavíkurbréfi í Morgunblaðsins að tölva hans hafi eitt sinn verið hökkuð. Segir Davíð að hann hafi litla þekkingu og fordómafullur út í tölvur. Bætir Davíð við að á þeim tíu árum sem hann hafi haft afdrep í Hádegismóum hafi ýmislegt gengið á í samskiptum hans við tölvur og tæknina en staðan orðið aðeins betri eftir því sem árin hafa liðið. Davíð segir:

„Uppteknir tölvusnillingar móans eru því sjaldnar truflaðir af þessum eina manni, oftast með vandamál langt fyrir neðan virðingu sérfræðinga. Maðurinn, sem í þessu tilviki var vandamálið en ekki tækið, álpaðist forðum í forsetaframboð, og varð hann þá tölvulegur einstæðingur í nokkrar vikur.“

Davíð bætir við að eitt skipti þegar hann hafi ætlað að senda tölvupóst hafi þau skilaboð birst á skjánum að tölvupósthólfið væri fullt. Eyddi Davíð þá öllum póstum en það hafði ekkert að segja.

„Fyrst engu tauti varð komið við tölvuna var sent neyðarkall á snillingana í Hádegismóum. Þeirra viðbrögð voru að tífalda umfang hólfsins til bráðabirgða svo það ætti að duga heilu herfylki.“

Það dugði ekki heldur. Davíð heldur áfram:

„Þegar málið var skoðað kom í ljós að tölvan hafði verið hökkuð og hlaðið inn í hana slíku magni af ruslpósti að hún kafnaði. Það fór ekki á milli mála að einhver arfavitlaus hakkari hafði lítið betri dómgreind en frambjóðandinn varðandi þá hættu sem stafaði frá honum í þessum kosningum og því gripið til örþrifaráða.“

Davíð segir þó að þetta hafi á endanum verið blessun. Í dag láti hann framkalla myndir og prenta út þann tölvupóst sem hann finnst máli skipta. Davíð segir:

„En þetta varð þó „blessun í dulargervi“ því að þar með festust eða forskrúfuðust allir fordómar bréfritara um tölvur svo kirfilega að þeim verður varla haggað á þeim tíma sem kann að gefast til þess. Hann lætur því núna framkalla þær myndir og þau bréf sem mestu skipta.“