Þrír handteknir vegna skipulagðrar brotastarfsemi – rannsókn snýr að fíkniefnamisferli og peningaþvætti

Þrír eru í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í þágu rannsóknar hennar á skipulagðri brotastarfsemi. Þremenningarnir voru handteknir fyrr í vikunni og úrskurðaðir í gæsluvarðhald til 19. júní á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Rannsókn lögreglu snýr meðal annars að fíkniefnamisferli og peningaþvætti, en ráðist var í þrjár húsleitir vegna þessa og var um umfangsmiklar aðgerðir að ræða. Rannsókn málsins hefur staðið yfir undanfarnar vikur, en hinir handteknu eru á fertugs- og fimmtugsaldri.

Í tilkynningunni er þess einnig getið að fjórir aðrir eru í haldi lögreglu í óskyldu máli sem snýr þó einnig að skipulagðri brotastarfsemi. Þeir voru handteknir í síðustu viku og úrskurðaðir í gæsluvarðhald.

Þessar aðgerðir eru liður í baráttu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu gegn skipulagðri brotastarfsemi.