Þórhildur sunna hefði verið friðhelg í pontu

Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, og Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, eru gestir Lindu Blöndal í frétta- og umræðuþættinum 21 á Hringbraut í kvöld. Þar ræða þau siðanefnd Alþingis. 

Hver sem er getur kvartað undan þingmanni til forsætisnefndar. Nefndin skoðar hvort að kvörtunin eigi erindi í siðanefnd en sú nefnd er ráðgefandi í áliti til forsætisnefndar aftur. Forsætisnefnd getur jafnvel sent málið til baka í siðanefndina eða látið málið niður falla.

Helga Vala og Björn Leví segja að forsætisnefnd eigi ekki að vera hluti af gangverkinu þegar mál þurfi eða það komi til álita að mál þurfi að fara til siðanefndar. Þeim finnst að siðanefndin eigi einungis að taka beint við málum og komast að niðurstöðu. Í dag sé forsætisnefnd með þingmönnum sigti á siðanefndina, en í henni sitja þrír aðilar utan þingsins.

Björn Leví segir að það sé grundvallaratriði að meta sannleiksgildi ummæla sem skoðuð eru og vísar til tilfellis Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata, sem siðanefnd telur hafa brotið gegn siðareglum Alþingis. Siðanefndin telur sig þó ekki geta metið sannleiksgildi ummælanna.

Í umræðuþættinum Silfrinu á RÚV sunnudaginn 25. febrúar 2018 sagði Þórhildur Sunna meðal annars: „Nú er uppi rökstuddur grunur um það að Ásmundur Friðriksson hafi dregið að sér fé, almannafé, og við erum ekki að sjá viðbrögð þess efnis að það sé verið að setja á fót rannsókn á þessum efnum.“

Athyglisvert er að hefði Þórhildur Sunna látið orð sín falla í pontu á Alþingi hefðu ummælin ekki  fallið undir siðareglur þingsins. Í pontu á Alþingi nyti hún friðhelgi en þar sem ummælin féllu í sjónvarpsþætti féllu þau undir siðareglur Alþingis.

Skiptar skoðanir eru um hvort siðanefndir eigi yfir höfuð að vera til staðar og hefur verið nefnt að slíkar nefndir séu útsettar fyrir því að vera misnotaðar í pólitískum tilgangi. Helga Vala og Björn Leví minnast bæði á að það sé frekar nýlegt að siðanefndin fari yfir mál, og að allt í einu hafi þeim fjölgað.

Málin sem siðanefndin hefur tekið fyrir á síðustu misserum eru:

  1. Ummæli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, um að allir þingmenn tali eins og sex þingmenn flokksins töluðu á Klaustur bar í nóvember síðastliðnum. Málið var látið niður falla af forsætisnefnd.
  2. Ummæli Björns Leví um að akstursgreiðslur til Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, teldust til fjársvika. Siðanefnd taldi ummælin ekki brjóta siðareglur.
  3. Ofangreind ummæli Þórhildar Sunnu, þar sem hún vænir Ásmund um fjárdrátt vegna akstursgreiðslna hans. Þórhildur Sunna er talin hafa brotið siðareglur Alþingis.
  4. Háttsemi Ágústs Ólafs Ágústssonar, þingmanns Samfylkingarinnar, þar sem hann áreitti blaðamann Kjarnans. Ágúst Ólafur þótti ekki hafa brotið siðareglur hjá siðanefnd en málið á eftir að fara til forsætisnefndar, sem mun leiða málið til lykta.

Rætt er við Helgu Völu og Björn Leví í 21 í kvöld. Þátturinn hefst klukkan 21:00.