Þorgerður katrín hitti bjargvætt sinn í ikea: „finnst gott að geta þakkað fyrir mig eftir öll þessi ár.“

„Flottur maður. Finnst gott að geta þakkað fyrir eftir öll þessi ár.“ Þetta sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir formaður Viðreisnar í vikunni á Twitter. Eiríkur Jónsson gerði sér mat úr færslu Þorgerðar en í IKEA hitti hún fyrir tilviljun eldri mann, eða mann á besta aldri líkt og hún orðar það við Hringbraut sem hafði komið henni til aðstoðar þegar hún var 15 ára gömul.

Þorgerður Katrín var stödd í IKEA um helgina til að versla inn vörur fyrir sveitabæinn sem fjölskyldan á í Ölfusi, en bærinn er staðsettur skammt frá Núpum. Er sveitabærinn í hennar aðrar æskuslóðir. Þorgerður Katrín segir

„Þetta er bara lítil krúttleg saga. Ég var mætt snemma og hélt að það væri búið að opna. Ég brá mér þá í kaffiteríuna til að fá mér morgunmat. Þá kemur eldri maður, eða maður á besta aldri og segir:

„Manstu Þorgerður eftir hérna um árið 1980 þegar þú varst tekin upp í af olíubílastjóra.“

Þorgerður svaraði að hún myndi eftir einu skipti þegar hún var í Ölfusi.“

„Þá hef ég verið að fara frá Selfossi, heim í sveitina en ég flakkaði stundum þarna á milli.“

„Ég man einmitt það. Ég er sá maður sem tók þig upp,“ sagði maðurinn. „Þú varst með rauða húfu.“

„Það passaði alveg. Ég var alltaf með rauða húfu,“ segir Þorgerður í samtali við Hringbraut og kveðst hafa bætt við að hún hefði aðeins verið 15 ára þegar þetta átti sér stað.

„Það passar,“ sagði maðurinn þá. „Ég hef oft horft á þig í sjónvarpinu og hugsað til þín.“

„Ég er honum mjög þakklát fyrir að hafa tekið mig upp í. Það var virkilega gaman að hitta hann. Hann kom til mín, var ótrúlega ljúfur og skemmtilegur maður og heitir Ásgeir. Meira veit ég ekki. Mér fannst þetta notalegt í þessu skemmtilega umhverfi, þennan helgarmorguninn. Finnst gott að geta þakkað fyrir mig eftir öll þessi ár.“