Þórður ósáttur: myndir teknar af skartgripum konunnar og erfðaskránni - „veit um fólk sem hefur varla farið út úr húsi“

Þórður Áskell Magnússon dróst með óvæntum hætti inn í Euro Market málið svokallaða, þar sem fyrirtæki hans, Djúpaklettur ehf., sætti rannsókn vegna meints peningaþvættis. Þórður er enn með stöðu grunaðs manns þrátt fyrir að skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi gefið út að ekki sé tilefni til frekari aðgerða. Fjallað er um málið í nýjasta tölublaði DV, sem kom út í dag.

Þórður opnaði sig nýlega á samfélagsmiðlum um rannsóknina sem hann og fólk nákomið honum sætti: „Fyrir rúmu ári var gerð árás á heimilið mitt og fyrirtæki af Rannsóknarlögreglu ríkisins. Ég var sjálfur í Bandaríkjunum, en ekki færri en átta lögreglumenn sáu til þess að samtímis væri farið í fyrirtækið mitt, bókhald allt fjarlægt, heimili mitt sett á hvolf, lögreglumenn fóru með heimild í bankann til að brjótast inn í bankahólf sem ég var með þar á leigu. Teknar voru myndir af öllum skartgripum konunnar, erfðaskránni minni, og allar eigur mínar skráðar. Ríkisskattstjóra var sent allt með kröfu um að bókhaldið yrði lúslesið.“

Árið 2013 lánaði Þórður Arkadiusz Niescier, öðrum af eigendum Euro Market, 18 milljónir í tengslum við stofnun á bílaleigu. Eiginkona Þórðar er tengd Arkadiusz, eða Arek eins og hann er kallaður, fjölskylduböndum. Þau eru bræðrabörn og ólust upp saman í Póllandi. Þórður lánaði Arek peningana löngu áður en verslanir Euro Market voru stofnaðar en ekki virðist hafa verið tekið tillit til þeirrar staðreyndar við rannsókn málsins.

Euro Market málið

Hið svokallaða Euro Market mál snerist um innflutning og sölu fíkniefna, fjársvik og peningaþvætti. Á Íslandi varlagt hald á eignir og reiðuféfyrir 200 milljónir íslenskra króna. Götuverðmæti þeirra eiturlyfja sem um ræddi var talið hálfur milljarður króna. Alls voru átta manns handteknir í þremur löndum; Íslandi, Póllandi og Hollandi.

Árið 2016 var greint frá því að verslunarfyrirtækið Market ehf., sem rak þrjár pólskar smávöruverslanir, væri viðriðið málið. Húsleit var gerð í verslununum og hald lagt á eignir. Samkvæmt ársreikningum hafði velta félagsins tvöfaldast á einu ári, úr 250 milljónum króna í 500. Eigendurnir voru áðurnefndur Arkadiusz Niescier og Arkadiusz Maciej Latowski. Fimm Pólverjar voru handteknir í lögregluaðgerðunum.

Þrátt fyrir háfleygar tilkynningar lögreglu hér á landi um umfang málsins hefur enn engin ákæra verið gefin út í málinu og verslanir Euro Market eru enn opnar. Á meðan eru allir haldlagðir fjármunir í geymslu ríkisins og sömuleiðis eru allar eignir þeirra sem hlut eiga að máli enn frystar.

Steinbergur Finnbogason, verjandi annars af eigendum Euro Market sagði á sínum tíma að engra breytinga væri að merkja á rekstrinum fyrir og eftir aðgerðirnar, fyrir utan það að posakerfi verslananna hefði verið lokað tímabundið. Hann benti einnig á að eignirnar sem lagt hefði verið hald á væru að mestu íbúðir í Breiðholti að verðmæti um 200 milljóna króna en að á þeim hvíldu lán upp á 170 milljónir og haldlagðar eignir væru því í raun í kringum 30 milljónir.

Málið komst loks inn á borð ákærusviðs lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku. Þar verður tekin ákvörðun um hvort málið teljist fullrannsakað og hvort hlutaðeigandi aðilar verði sóttir til saka. Óvíst er hvenær málið fer frá ákærusviði.

Fjölskylda og vinir með stöðu grunaðra

Alls fengu níu einstaklingar sem tengjast Þórði réttarstöðu grunaðra manna vegna rannsókn málsins. Hann segist vita til þess að sími hans hafi verið hleraður í tengslum við rannsókn málsins. Hann segist sjálfur vera vel settur fjárhagslega og hafa þykkan skráp. „Ég hef þegar þurft að leggja fram rúmlega þrjár milljónir vegna málsins. Ég bý að því að vera skuldlaus og í góðri stöðu fjárhagslega. En hvað ef ég væri það ekki? Hvernig hefði ég þá getað staðið undir þessu?“ veltir Þórður fyrir sér.

Í áðurnefndri færslu ræðir hann hvernig það að sæta rannsókn sem þessari geti haft misjöfn áhrif á fólk: „Ég veit um fólk sem hefur varla farið út úr húsi, það skammast sín svo fyrir að vera bendlað við fíkniefni og peningaþvætti. Einn drengur sem vann í búðinni hjá Arek mun aldrei ná sér. Hann vinnur svona svipaða vinnu hjá Arek eins og Piotr vinnur hjá mér, sér ekki um peningamál en sér um að vinnan sé framkvæmd. Hann var settur í gæsluvarðhald yfir jólin 2018. Hann sá ekki börnin sín þau jól, hann hefur varla farið út úr húsi eftir að honum var sleppt, talar enn varla við nokkurn mann. Hann mun aldrei ná sér. Vald ber að umgangast með varúð.“ Á meðan Þórður hefur enn réttarstöðu grunaðs manns getur hann ekki leita réttar síns.

Að lokum sendir Þórður yfirvöldum tóninn. „Það er ljóst að þegar Ríkislögreglustjóri gefur það út að þessu „máli“ sé endanlega lokið að kröfur á ríkissjóð munu nema tugum milljóna, að algeru lágmarki. Bara minn kostnaður er kominn í um þrjár milljónir. Kostnaður við störf þessara barna hjá Ríkislögreglustjóra hlýtur að hlaupa á tugum milljóna einnig, það er gott að vita í hvað skatturinn okkar fer. Ég og öll mín fjölskylda er enn með „stöðu grunaðs manns“, og hvenær því lýkur veit enginn. Ég ekki bara spái því, ég veit, að engin ákæra verður nokkurn tímann gefin út. Þeir fundu „glæpamennina“ en eru enn að leita að glæpnum.“

Viðtalið í heild sinni má lesa í helgarblaði DV.