Þegar kengúru var stolið í hafnarfirði: „þær eru fjórar. það vantar eina. hún er hjá okkur“

Fjölmörgum kengúrum hefur verið stolið í Danmörku undanfarið. Á vef RÚV sem vitnar í danska útvarpið er greint frá því að 22 kengúrur hafi horfið í ár. Þá hafi níu kengúrur horfið úr dýragarðinum Munkholm í Balle. Hefur stuldurinn leikið þá einu kengúru sem eftir er ansi grátt. Hún saknar félaga sinna og er sögn afar vansæl.

Á vef DR segir að ólögleg verslun með dýr komi næst á eftir fíkniefnaviðskiptum og miklir peningar í spilinu. Fyrir kengúru er hægt að fá allt að þrjú hundruð þúsund krónur.

Þess má geta að kengúruþjófnaður hefur einnig átt sér stað hér á landi. Margir muna eftir Sædýrasafninu sem var starfrækt í nærri tvo áratugi en Jón Kr. Gunnarsson  opnaði safnið árið 1969. Safninu var lokað árið 1987 vegna fjárhagsörðugleika. Skömmu eftir opnun fékk safnið ísbjarnarhún að gjöf, þá bættust við hrafnar og refir. Þá voru dýr keypt af öðrum görðum og tóku einnig við gæludýrum sem fólk hafði gefist upp á.

\"\"

Í upprifjun á starfsemi safnsins á vef Lemúrsins segir að safnið hafi  fjármagnað með aðgangseyri auk tekna sem fengust fyrir að fanga háhyrninga fyrir sædýrasöfn víða um heim. Þeir voru geymdir í laug í Sædýrasafninu áður en þeir voru fluttir erlendis. Í þeim hópi er hinn heimsfrægi háhyrningur Keikó sem fangaður var árið 1979.

Síðan bættust við selir og ljónsungar og sagði Ragnhildur , dóttir Jóns, frá því í viðtali við DV að framandi dýr hefðu streymt inn á heimilið. Þannig hefðu ljónsungarnir verið vistaðir þar til að byrja með. Þeir hafi verið gæfir eins og hundar, fengið pela og þurft reglulega hreyfingu.

„Við settum hundaól á þá og fórum með þá í göngutúr um Hellisgerði til að viðra þá. Auðvitað yrði þetta ekki gert í dag. Það er svo margt sem maður þarf að skoða út frá þessum tíma. Í dag myndi maður hafa ljón í stærra plássi og maður myndi ekki fara með þau í göngutúr í Hellisgerði. Þetta var allt annar tími.“

Síðan bættust við kengúrur við. Þannig rifjar Lemúrinn upp að þegar Sædýrasafninu var lokað í desember árið 1988 fundust fjórar kengúrur í hrörlegum kofa. Var aðstaða dýranna afar sorgleg. Forstöðumönnum hafði verið fyrirskipað að lóga öllum dýrunum en því var ekki framfylgt. Þá er þess getið að dýrin hafi verið tannlaus og hafi litið út fyrir að tennurnar hefðu verið dregnar úr þeim.

\"\"

Á meðan safnið var opið var einni kengúru stolið. Var þar að verki ógæfufólk úr undirheimunum sem hafði brotist inn á safnið í leit að fjármunum. Þar var enga peninga að finna, en á einhverjum tímapunkti þótti einum úr hópnum það vera prýðis hugmynd að stela einni kengúrunni. Farið var með hana út í bíl, ekið í átt að Reykjavík og haldið á vit ævintýranna í miðbænum.

Á Laugaveginum var farið í samkvæmi í húsi sem stóð við hliðina á Stjörnubíó. Húsið var síðan rifið þegar byggður var bílastæðakjallari á rústum kvikmyndahússins. Kengúran var síðan helsta skemmtiatriðið í samkvæminu.

\"\"

Þegar mesta áfengisvíman var runnin af gestum morguninn eftir runnu á menn tvær grímur. Nú var ekki eins skondið að hafa kengúru hoppandi um í húsinu. Þjófarnir brugðu á það ráð að setja kengúruna í kassa. Síðan hringdu þeir upp í Sædýrasafn og símtalið sem tekið var úr tíkallasíma á Hlemmi, en nokkurn tíma tók að sannfæra starfsmann um að kengúran hefði eytt nóttinni í afar vafasömum félagsskap í miðborginni. Samtalið var víst á þessa leið:

„Já, sæll. Við erum með eina kengúruna ykkar.“

Starfsmaður: Ha!?

„Ein kengúran, hún er hjá okkur.“

Starfsmaður: Um hvað ertu að tala, það getur ekki verið.

„Farðu bara og teldu. Þær eru fjórar. Það vantar eina. Hún er hjá okkur.“

Hik kom á starfsmanninn sem loks lagði frá sér tólið en kom síðan aftur í símann.

Starfsmaður: Heyrðu, þær eru bara þrjár.

„Eins og ég sagði. Við erum með eina kengúruna ykkar.“

Starfsmaður: Eruð þið að biðja um lausnargjald?

„Við viljum bara losna við hana.“

Starfsmaður: Hvað gerum við í því?

„Kengúran er í kassa. Við keyrum með hana í átt að Ártúnsbrekki. Þar er brú. Við skiljum kassann eftir þar.“

Og þangað var kengúran sótt af starfsmönnum Sædýrasafnsins.