Þau vita að íslendingar eru gott fólk: „í öllum samfélögum eru rotin epli“

„Haldiði ekki að ég hafi brugðið mér til Grænlands daginn sem Samherjamálið kom upp. Ég á vini í Namibíu, og um leið og ég komst í netsamband sendi ég þeim orðsendingu og bað þá afsökunar á framferði landa minna.“

Þannig hefst pistill á Hringbraut.is eftir forseta Hróksins, Hrafn Jökulsson, en hann var staddur á Grænlandi á sama tíma og Samherjamálið var til umfjöllunar hér á landi. Hrókurinn hefur ekki aðeins staðið fyrir skáktrúboði á Grænlandi, hann hefur einnig tengsl við Namibíu en þar hafa liðsmenn Hróksins staðið fyrir skákkennslu og hjálparstarfi.

Hrókurinn hefur einnig í fjölda ára verið með starfsemi á Grænlandi og þá oft í samstarfi við hin ýmsu félög sem vilja láta gott af sér leiða og þannig glatt grænlensku þjóðina með skákhátíðum, skákkennslu og farið klyfjaðir gjöfum frá Íslandi til að færa  grænlenskum börnum.  Hrafn kveðst hafa fengið elskuleg svör frá vinum sínum í Namibíu vegna Samherjamálsins. Svörin sem Hrafn fékk voru eftirfarandi:

 „Við vitum að Íslendingar eru gott fólk. Og síðan orðrétt: „Í öllum samfélögum eru rotin epli.““

Hrafn segir að á grænlenskum vetrarnóttum gefist friður til að setja upp hin ýmsu dæmi. Það dæmi sem hann tiltekur svipar nokkuð til þeirra ásakana sem eigendur Samherja eru nú sakaðir um í fjölmiðlum. Hrafn heldur áfram:

„Segjum sem svo, að íslenskt útgerðarfyrirtæki hasli sér völl í einu norrænu landi (t.d. Grænlandi). Þar gætu máske gilt reglur um erlent eignarhald, þannig að það fari ekki uppfyrir 30 prósent.

Hvað gera framsæknir útgerðarmenn þá? Jú, þeir gætu kannski, datt mér í hug meðan ég hlustaði á ýlfur sleðahundanna, ráðið sér lepp í viðkomandi norrænu ríki sem í orði kveðnu færi með eignarhald, en væri alfarið bandingi íslensku snillinganna.

Svo fengju þeir kvóta og færu að fiska, og sá fiskur kæmi aldrei í land í viðkomandi ríki, leppurinn fengi sitt og íslenska útgerðarfyrirtækið hagnaðist um skrilljónir, á kostnað þessarar ágætu norrænu þjóðar.

Margskyns lög væru brotin, en grátklökkir kæmu viðkomandi íslenskir samverjar fram og segðu hve þeim væri mikið í mun að byggja upp atvinnuvegi og mannlíf í viðkomandi landi. Gróðinn, einhverra hluta vegna, endaði allt annarsstaðar, nema í tilviki örfárra útvalinna leppa.“

Þá segir Hrafn að lokum:

„Slíkar greiðslur hafa eitthvað nafn, man ekki hvað. Ekki væri þetta fögur saga. Berist sem allra víðast. Með kveðju frá Grænlandi.“