Þarf að styrkja alþjóðlegt viðskiptaumhverfi

Már Guðmundsson seðlabankastjóri sótti vorfund fjárhagsnefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (International Monetary and Financial Committee, IMFC) sem haldinn var dagana 12.-14. apríl í Washington. Seðlabankastjóri er fulltrúi Íslands í sjóðráði Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (e. Board of Governors) sem er æðsta ráð stofnunarinnar. Fulltrúi Norður- og Eystrasaltslandanna á fundi nefndarinnar var að þessu sinni Magdalena Andersson, fjármálaráðherra Svíþjóðar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Seðlabankanum.

\"Mynd

Í tengslum við vorfundinn átti Már Guðmundson seðlabankastjóri fundi með Christine Lagarde, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, Tao Zhang aðstoðarframkvæmdastjóra og Poul Thomsen, yfirmanni Evrópudeildar. Fulltrúar Seðlabankans áttu auk þess fundi með öðrum stjórnendum og sérfræðingum sjóðsins og sóttu ráðstefnur sem efnt var til í tengslum við vorfundinn. 

Þá kemur einnig fram að á fundi fjárhagsnefndarinnar lagði framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) fram stefnuyfirlýsingu sína (e. Global Policy Agenda) sem sýnir mat sjóðsins á þróun heimsbúskaparins og helstu áskoranir og viðfangsefni framundan.

Hægt hefur á alþjóðahagvexti eftir sterkan vöxt síðustu tveggja ára, m.a. vegna spennu í alþjóðaviðskiptum og stjórnmálum og óvissu um stefnumörkun. Horfur til meðallangs tíma eru miðlungsgóðar vegna lítils framleiðnivaxtar vinnuafls og hækkandi lífaldurs, á sama tíma og svigrúm til að beita tækjum hagstjórnar er víða takmarkað. Aðildarlönd sjóðsins voru hvött til að stuðla að auknum hagvexti, bæta viðnámsþrótt og beita sér fyrir að allir hafi aðgang að auknum lífsgæðum.

Í þessu skyni þarf einnig aðgerðir á alþjóðavísu svo sem að styrkja alþjóðlegt viðskiptaumhverfi sem grundvallast á skýrum reglum, draga úr skuldsetningu, takast á við skattasniðgöngu yfir landamæri og uppfæra og innleiða alþjóðlega reglusetningu í fjármálageiranum. 

Ályktun fjárhagsnefndarinnar sem samþykkt var í lok fundarins undirstrikaði nauðsyn þess að takast sameiginlega á við hægari alþjóðahagvöxt, meðal annars með því að styrkja fjölþjóðlega samvinnu. Fjárhagsnefndin ítrekaði stuðning sinn við að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sé sterk stofnun í miðju öryggisnets fyrir alþjóðlega fjármálageirann og vel fjármögnuð með stofnfé aðildarlanda. Fjárhagsnefndin fór þess á leit við stjórn AGS að vinnu við fjármögnun og stjórnarhætti verði fram haldið og að vinnu við 15. endurskoðun kvóta verði lokið fyrir ársfund sjóðsins síðar á árinu.

Fyrir vorfundinn hélt seðlabankastjóri erindi og tók þátt í hringborðsumræðum hjá Miller Center í Háskólanum í Virginíu í Charlottesville. Eftir fundinn tók hann þátt í hringborðsumræðum seðlabankastjóra og háskólakennara við Columbia-háskólann í New York um áskoranir peningastefnu og ríkisfjármálastefnu í litlum og opnum þjóðarbúum.