Tengdafaðir bjarna reiður: sori og ómerkilegheit - telja að bjarni ben sé að hætta

Útvarp Saga hefur efnt til skoðanakönnunar þar sem spurt er hvort hlustendur telji að Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra sé að hætta í stjórnmálum. Þær raddir hafa gerst háværari í sumar að Bjarni ætli að láta staðar numið og stefni að því að láta Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur taka við af sér. Vangaveltur í þessa veru hafa sést víða á netinu undanfarið. Náttfari á Hringbraut fjallaði einnig um að Bjarni vilji draga sig í hlé fljótlega. Orðrétt sagði Náttfari:

„Rætt hefur verið um að hann vilji að Þórdís Kolbrún ráðherra og varaformaður taki við. Hana skortir bæði reynslu og bakland innan flokksins. Einmitt það sem Guðlaugur Þór Þórðarson hefur nóg af. Hins vegar vilja flokkseigendur, með Bjarna í fararbroddi, annan en Guðlaug Þór í formannssætið. Þeim er ljóst að Guðlaugur Þór færi með sigur af hólmi ef kosið yrði milli hans og Þórdísar.

Vegna þessarar stöðu hefur verið litið út fyrir núverandi þingflokk. Einhverjir munu hafa nálgast Davíð Oddsson og spurt um áhuga hans á formannsframboði að nýju. Jafnvel hann sagði nei við því, trúlega minnugur þeirrar útreiðar sem hann hlaut í forsetakosningunum 2016.

Þá hafa menn velt fyrir sér að finna mann úr atvinnulífinu. Og nú er staldrað við nafn Tómasar Más Sigurðssonar sem er að koma heim eftir stjórnunarstörf hjá Alcoa erlendis. Tekið var fram að hann hefði ekki enn ráðið sig í starf á Íslandi. 

Það skyldi þó aldrei vera að Bjarni sé búinn að finna manninn?

Þó Tómas sé vænn maður mun hann ekki stöðva Guðlaug Þór, kæmi til formannskosninga milli þeirra.“

Tengdafaðir Bjarna Benediktssonar, Baldvin Jónsson, segir að Bjarni sé ekki að hætta. Baldvin er reiður og ósáttur og segir:

„Svo er efnt til skoðanakannana þar sem spurt er hvort fólk telji að viðkomandi sé að hætta í stjórnmálum? Viðkomandi kannast ekki við það en samt heldur fólk áfram með sora, dylgjur og ómerkilegheit. Er ekki í lagi með okkur þessa annars ágætu þjóð? Eða er hún það ekki svona upp til hópa?“

Líkt og kom fram hér að ofan hefur Útvarp Saga efnt til könnunar. Þar telja um 70 prósent hlustenda að Bjarni ætli að hætta. Egill Helgason fjallar einnig um málið á Eyjunni og telur að Bjarni haldi áfram. Hann segir: „Kannski er þessu dreift sem lið í innanflokksátökum? En svo eru menn farnir að tala eins og þetta sé alveg að fara að gerast – og nota þá tækifærið til að gera lítið úr Þórdísi Kolbrúnu, líkt og virðist vera lenska hjá vissum hópi Sjálfstæðismanna þessa dagana.“