Tekjublaðið: hafþór júlíus fær margar milljónir á mánuði – gerði kaupmála við eiginkonuna

Hafþór Július Björnsson er með rúmar sex milljónir á mánuði í laun, eða rúmar sjötíu milljónir á ári. Hafþór er einn þekktasti Íslendingur samtímans, hefur hann leikið í þáttum og auglýsingum og varð heimsfrægur eftir að hafa leikið fjallið í sjónvarpsþáttunum Game of Thrones.

Þetta kemur fram í Tekjublaði DV sem kemur út á morgun. Þar kennir ýmissa grasa, líkt og síðustu ár, en upplýsingarnar byggja á greiddu útsvari samkvæmt álagningarskrám Ríkisskattstjóra.

Hafþór gifti sig í fyrra og gekk undir hárígræðslu. Eiginkonan er Kelsey Henson, en þau hafa verið saman síðan 2017. Í umfjöllun DV fyrr á þessu ári sagði um Hafþór Júlíus:

„Ásakanir um heimilisofbeldi gagnvart fyrrverandi kærustum og sambýliskonum koma einnig títt upp þegar nafn hans ber á góma, og hafa konur tengdar sem ótengdar þeim málum skrifað ummæli þess efnis á samfélagsmiðlum. Því svaraði Fjallið af fullum krafti og sagðist lögsækja konur sem létu slíkar athugasemdir falla, fyrir ærumeiðingar.“

Þá sagði einnig á DV

„Hafþór og Kelsey undirrituðu kaupmála í ágúst í fyrra þar sem allar eignir hans eru séreign hans, þar undir falla Austurkór 117, 150 fermetra parhús, fasteignamat 65.850.000, Engihjalli 19, 78,1 fermetra íbúð, fasteignamat 29.850.000 krónur., Hamraborg 28, 52,4 fermetra íbúð, fasteignamat 25.300.000 krónur, hlutafé Hafþórs í einkahlutafélögunum Fjallið Hafþór ehf., Icelandic Mountain Spirits ehf. og Thor’s Power ehf., auk eignarhluta hans í Thors Power Gym sf., auk allra líkamsræktartækja og annarra tækja í sal stöðvarinnar að Auðbrekku 2. Allt innbú að Austurkór auk allra hugverkaréttinda sem tengjast ímynd, persónu og íþróttaiðkun Hafþórs.“

Þá sagði einnig á vef DV að í september í fyrra hefði Hafþór barist við aðra fjárfesta um nauðungarsölu á Austurkór um 20% eignarhlut fyrrverandi sambýliskonu hans. Íbúðin var sett á nauðungarsölu að ósk hennar sem liður í fjárhagslegu uppgjöri þeirra í kjölfar sambandsslitanna. Á vef DV segir:

„Þau keyptu eignina í september 2016 og var  Hafþór skráður fyrir 80% hlut í fasteigninni, en hans fyrrverandi 20%. Nauðungarsölunni lauk eins og áður segir með því að Hafþór keypti eignina fyrir 66,7 milljónir króna.“