Skipan sigríðar á dómurum við landsrétt hefur kostað ríkið tugi milljóna

Heildarkostnaður sem íslenska ríkið hefur þegar greitt vegna skipunar dómara við Landsrétt er 23.396.931 krónur. Til viðbótar er ógreiddur dæmdur málskostnaður og bætur fyrir íslenskum dómstólum að upphæð 7.500.000 kr. þar sem umrædd mál sæta áfrýjun. Þá er ógreiddur dæmdur málskostnaður fyrir Mannréttindadómstól Evrópu, rúmar tvær milljónir króna, þar sem óskað hefur verið eftir því að yfirdeild taki málið til endurskoðunar.

Þetta kemur fram í svari Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur dómsmálaráðherra við fyrirspurn Helgu Völu Helgadóttur, þingkonu Samfylkingarinnar, um kostnað vegna skipunar Sigríðar Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, á fjórum dómurum við Landsrétt. Mannréttindadómstóll Evrópu dæmdi skipanina ólögmæta, líkt og kunnugt er.

Svarið var birt á vef Alþingis í dag. Í svarinu er einnig greint frá því að ótalinn sé kostnaður af starfi dómnefndar um hæfni umsækjenda um embætti dómara og starfsmanns hennar, kostnaður vegna auglýsinga og annar slíkur kostnaður sem til féll á undirbúningsstigi.

Helga Vala hefur þurft að bíða lengi eftir svarinu, en hún lagði fyrirspurnina fram þann 25. mars síðastliðinn.

Stór hluti heildarkostnaðarins, greidds og ógreidds, er málskostnaður, kærumálskostnaður, miskabætur og skaðabætur til handa dómaranna fjögurra sem Sigríður færði af lista yfir hæfustu umsækjendur um dómarasæti við Landsrétt. Þetta eru þeir Ástráður Haraldsson, Jóhannes Rúnar Jóhannsson, Jón Höskuldsson og Eiríkur Jónsson. Upphæðin nemur tæplega 14 milljónum króna.

Þá nemur aðkeypt lögmannsþjónusta vegna bótamála Ástráðs og Jóhannesar Rúnars gegn íslenska ríkinu samtals 9.472.870 krónum.

Aðkeypt sérfræðiráðgjöf til forsætisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis í aðdraganda og í kjölfar niðurstöðu Mannréttindadómstóls Evrópu nemur 5.388.432 krónum.