Sjálfstæðisflokkurinn segir að borgaryfirvöld eigi ekki að koma fram við íbúa sína af tillitsleysi og hroka

„Reykjavík á að vera borg þar sem gott er að búa. Borgaryfirvöld eiga að þjóna íbúum sínum með góðri, vandaðri, gagnsærri- og heiðarlegri stjórnsýslu. Borgaryfirvöld eiga ekki að koma fram við íbúa sína af tillitsleysi og hroka.“ 

Þetta kemur fram í stjórnmálaályktun Reykjavíkurþingi Varðar – fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík sem samþykkt var í dag. Á þinginu var meðal annars rætt um stefnu Sjálfstæðisflokksins í samgöngumálum, menntamálum og velferðarmálum. Sjálfstæðismenn segja að skoða þurfi meðal annars breytingar á opnunartíma stórra vinnustaða í borginni ásamt staðsetningu þeirra.

„Tryggja þarf góðar og greiðar samgöngur allra samgöngumáta. Það verður aðeins gert með gatnakerfi sem stenst kröfur um öryggi og skilvirkni. Framtíðarskipulag borgarinnar þarf að grundvalla á bestu fáanlegum upplýsingum og aðferðafræði. Brýnt er að umferðalíkan greini vandamál núverandi gatnakerfis í Reykjavík og stuðli að greiðari samgöngum til framtíðar. Reykjavík á að vera í fararbroddi í að nýta tækninýjungar í samgöngum. Skoða þarf gaumgæfilega breytingu á opnunartíma stórra vinnustaða og staðsetningu þeirra með það í huga að draga úr umferðarálagi.“

Þá segja Sjálfstæðismenn að þéttingarstefna meirihlutans í Reykjavík sé á villigötum og geti haft skaðleg áhrif.

„Innviðargjald og skortur á úthlutun lóða hefur stórhækkað íbúðaverð og gert fólki erfiðara að eignast húsnæði. Tryggja þarf nægt framboð lóða undir íbúðarhúsnæði í hverfum borgarinnar þar sem ungt fólk getur eignast sitt eigið húsnæði. Þétting byggðar á ákveðnum svæðum í borginni, eins og hún hefur verið framkvæmd undanfarin ár, er á villigötum og hefur víða haft skaðleg áhrif á umhverfi sitt.“

Einnig kom fram á fundinum að Sjálfstæðismenn séu gegn öllum veggjöldum sem leggjast ójafnt á íbúa eftir búsetu.