Sigurði var nauðgað í marseille: „ég hélt hreinlega að ég væri að fara að deyja“ – gerandinn gengur enn laus

„Skyndilega réðst hann á mig, algjörlega upp úr þurru. Hann kýldi mig í síðuna og hrinti mér á magann. Því næst reif hann niður um mig buxurnar. Síðan nauðgaði hann mér.”

Þetta segir Sigurður Gói Ólafsson í samtali við DV í dag. Sigurður varð fyrir fólskulegri líkamsárás og nauðgun í frönsku borginni Marseille í síðasta mánuði, auk þess sem hann var rændur. Málið er til rannsóknar hjá héraðslögreglunni í Bouches-du-Rhône en gerandinn gengur enn laus.

Sigurður á í fjarsambandi við franska konu sem er búsett í Marseille. Hann segist alltaf hafa upplifað sig öruggan í borginni áður en hann varð fyrir árásinni. „Ég hafði aldrei lent í neinu veseni áður en þetta gerðist. Ég hef alltaf upplifað mig öruggan í borginni og alltaf kunnað afskaplega vel við fólkið.“

Hefur gerbreytt lífinu

Sigurður lýsir því hvernig árásin hafi gerbreytt lífi hans. „Maður heldur alltaf að ekkert muni koma fyrir mann. Ég er þannig gerður að ég vil alltaf trúa á það góða í fólki. Ég hef alltaf viljað standa í þeirri trú að allir hafa eitthvað til brunns að bera. Hjá sumum þarf kannski bara að hafa meira fyrir því að laða það fram.“

Hann hafði verið í borginni í um sólarhring þegar hann skrapp niður í bæ til þess að kaupa nýtt hleðslutæki fyrir símann sinn. „Ég var á leiðinni aftur heim snemma um kvöld. Ég stytti mér leið í gegnum garð þegar maður á reiðhjóli gaf sig á tal við mig. Við vorum bara eitthvað að spjalla og hann kom mér fyrir sjónir sem ósköp venjulegur maður. Hann spurði mig hvaðan ég væri og hvert ég væri að fara og þess háttar. Skyndilega réðst hann á mig, algjörlega upp úr þurru. Hann kýldi mig í síðuna og hrinti mér á magann. Því næst reif hann niður um mig buxurnar. Síðan nauðgaði hann mér.”

Sigurður lýsir því hvernig hann hafi frosið. „Ég stirðnaði upp af hræðslu. Ég var viss um að hann myndi drepa mig. Ég hélt hreinlega að ég væri að fara að deyja.“ Hann lýsir því sem hann telur að hafi kannski staðið yfir í nokkrar mínútur sem heilli eilífð.

„Þetta hefur haft hræðileg áhrif á mig. Það er eins og einhver hluti af mér hafi dáið. Fyrstu dagana á eftir var ég mjög hræddur og þorði ekki út úr húsi. Það er rosalega erfitt að lýsa þessu,“ segir Sigurður.

Hann var með því sem nam um 100.000 íslenskum krónum í reiðufé og hafði árásarmaðurinn það með á brott. Auk þess tók hann gleraugu Sigurðar, en hann er mjög sjónskertur.

Rifbeinsbrotinn og veikur af lyfjum

Í umfjöllun DV er einnig greint frá því að Sigurður hafi fengið aðstoð ungra pilta sem komu honum upp á lögreglustöð. Hann var svo fluttur á sjúkrahús, þar sem hann gekkst undir læknisskoðun. Þar kom í ljós að Sigurður reyndist rifbeinsbrotinn.

Hann þurfti einnig að gangast undir mánaðarlangan lyfjakúr til koma í veg fyrir hugsanlegt HIV-smit. Aukaverkanirnar eru miklar. „Maður verður fárveikur af þeim. Ég tek þau alltaf á kvöldin og vakna svo alltaf á nóttunni því ég verð að gubba,“ segir Sigurður.

Mikil fjárútlát

Árásin hefur haft mikinn kostnað í för með sér fyrir Sigurð, sem er einungis til að bæta á áhyggjur hans. Hann hefur til að mynda þurft að leggja út tæplega 125.000 krónur fyrir nýjum gleraugum.

Þá kostar mánaðarskammtur af HIV-lyfjunum 100.000 krónur, auk þess sem ferðatrygging nær ekki yfir stuldinn á 100.000 krónunum sem hann var rændur.

Sigurður þarf einnig sjálfur að leggja út fyrir meðferð hjá geðlækni og segir það óvíst hvort eða hversu mikið hann geti fengið greitt frá Sjúkratryggingum Íslands.

Auk þess getur hann ekki sótt um miskabætur frá íslenska ríkinu þar sem árásin átti sér stað í öðru landi.

Þeir sem vilja styðja við bakið á Sigurði er bent á eftirfarandi reikning: Reikningsnúmer 0331-26-6139 og kennitala 160858-6139