Sigmundur vill láta flagga upplýstum íslenskum fána á fimm stöðum, alla daga ársins, langt fram á kvöld

Níu þingmenn Miðflokksins hafa lagt fram frumvarp og er nýjasta hugmynd þeirra að  vilja gera breytingu á lögum um þjóðfána Íslendinga og ríkisskjaldarmerkið. Vilja þeir að íslenski fáninn sé dreginn að húni klukkan átta á morgnanna alla daga ársins við fimm byggingar og ekki tekinn niður fyrr en klukkan 21 á kvöldin. Þá skal fáninn vera upplýstur í skammdeginu.

Miðflokksmenn vilja að við sjöundu grein laganna bætist við að tjúgufáninn, Íslenski fáninn, verði dreginn á stöng hvern einasta dag ársins á Alþingishúsinu, Stjórnarráðshúsinu og byggingu hæstaréttar. Þá eigi íslenski fáninn einnig að vera dreginn upp við embættisbústað forseta Íslands og skrifstofu hans í Reykjavík. Þetta skal gerast eins og áður segir stundvíslega klukkan 8 og upplýstur þegar rökkva tekur.

Vilja Sigmundur og félagar að lögin taki gildi 1. desember 2019.  

Ljóst er á að töluverður kostnaður mun fylgja ef frumvarpið verður að lögum. Þetta þýðir að ræsa þarf út fólk á aðfangadag, jóladag, um áramót svo dæmi sé tekið til að draga fánann niður klukkan 21 á kvöldin. Auðvitað er svo um fleiri frídaga að ræða.

Ef reglur um íslenska fánann á vef Stjórnarráðsins eru skoðaðar kemur fram að fáninn blaktir við hún á hátíðardögum og þá á hann ekki að vera lengur uppi en til sólarlags.

Ekki kemur fram í greinargerð Miðflokksins af hverju skipti máli að láta fánann hanga uppi upplýstur til klukkan 21 á kvöldin við þessar fimm byggingar.

Þá er spurning hvort ekki þurfi að tilnefna sérlegan fána umsjónarmann til að halda utanum hugmynd Miðflokksmanna verði frumvarpið samþykkt.