Si, sa og así fagna ákvörðun um lækkun stýrivaxta

Samtök iðnaðarins, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands eru á meðal þeirra stofnana sem fagna ákvörðun peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands um að lækka stýrivexti um 0,25 prósent. Í morgun tilkynnti nefndin að meginvextir bankans, vextir á sjö daga bundnum innlánum, hafi verið lækkaðir í 3,75 prósent.

Í tilkynningu frá SI um ákvörðunina segir meðal annars:

Samtök iðnaðarins fagna því að peningastefnunefnd Seðlabankans hafi ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Til að hjálpa fyrirtækjum og heimilum að takast á við samdrátt í efnahagslífinu telja Samtök iðnaðarins mikilvægt að peningastefnunefndin lækki stýrivexti Seðlabankans. Með lægri vöxtum má m.a. efla fjárfestingu og nýsköpun, auka kaupmátt heimilanna og draga úr atvinnuleysi, líkt og segir í nýlegri greiningu SI um hagstjórn í niðursveiflu.“

Hefðu viljað meiri lækkun

Í samtali við Mbl.is segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, að ákvörðunin um vaxtalækkun eigi ekki að koma á óvart og að helstu tíðindin væru þau að lækkunin hafi ekki verið meiri en varð raunin. Hann fagnar þó ákvörðuninni og á von á frekari vaxtalækkun á næstu misserum. Næst mun peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynna um vaxtaákvörðun í lok ágúst.

Í tilkynningu frá SA vegna ákvörðunarinnar segir að frá síðasta vaxtaákvörðunarfundi, sem var haldinn í lok maí, hafi verðbólga hjaðnað og verðbólguvæntingar fyrirtækja og markaðsaðila lækkað meira en sem nemur vaxtalækkun dagsins í dag. „Miðað við þá þróun er aðhald peningastefnunnar að aukast þrátt fyrir boðaða vaxtalækkun. Ljóst má vera að rými til vaxtalækkunar er meira og hefði verið æskilegra að tryggja slaka í aðhaldi peningastefnunnar í ljósi þess efnahagsslaka sem framundan er.“

Jákvæðar fréttir

Drífa Snædal, forseti ASÍ, segir ákvörðunina vera jákvæðar fréttir sem staðfesti að markmið nýgerðra kjarasamninga um að bæta lífskjör á breiðum grunni hafi gengið eftir. Vaxtalækkun sé mikilvæg fyrir launafólk og efnahagslífið allt og sé enn eitt skrefið í átt að markmiðum samninganna að bæta lífskjör og afkomu fólks.

Í tilkynningu frá ASÍ segir ennfremur um ákvörðunina:

„Með ákvörðun sinni er Seðlabankinn að bregðast við breyttum aðstæðum í efnahagslífi en umsvif í hagkerfinu hafa dregist saman undanfarin misseri. Þar munar mestu um breyttar horfur í útflutningsgreinum en Seðlabankinn spáði í síðustu peningamálum að útflutningur myndi dragast saman um 3,7% á þessu ári. Vöxtur einkaneyslunnar mælist þó enn nokkur en samkvæmt nýjustu tölum Hagstofunnar jókst einkaneysla um 2,8% milli ára á fyrsta ársfjórðungi.“