Sema krefst þess að þeir sem beri ábyrgð á brottvísuninni taki afleiðingunum: „við erum að tala um algjöran hrottaskap“

„Í nótt var ung kona, sem komin er 36 vikur á leið, handtekin og brottvísað úr landi ásamt manni sínum og tveggja ára syni þeirra.“

Á þessum orðum hefur baráttukonan, Sema Erla Serdar, og stofnandi Solaris, hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi pistil sinn á Facebook um albönsku fjölskylduna sem send var úr landi í nótt.

„Konan var metin í mjög viðkvæmri stöðu og í áhættuhópi af Landlæknisembættinu og ekki þótti æskilegt að hún færi í langt flug þar sem það gæti stofnað lífi konunnar og ófædds barns hennar í hættu. Það kom þó ekki í veg fyrir að fjölskyldan var sótt um miðja nótt og hent úr landi. Aðgerð sem útlendingastofnun hefur í alvörunni reynt að réttlæta,“ segir Sema.

Sema segir atvikið ekki lengur flokkast sem mannréttindabrot eða óréttlæti heldur algjöran hrottaskap.

„Við erum ekki lengur að tala um ómannúðlega meðferð á fólki. Við erum ekki lengur að tala um óréttlæti, mannréttindabrot og grimmilega meðferð íslenskra yfirvalda á fólki á flótta. Við erum að tala um algjöran hrottaskap,“ segir hún.

Þá segir hún þessa hegðun yfirvalda í garð fólks í viðkvæmri stöðu forkastanlega.  

„Við erum að tala um aðgerðir sem geta kostað einstaklinga og ófædd börn þeirra lífið. Slíkan hrottaskap er ekki hægt að verja með nokkrum hætti og hann á aldrei að líða. Við sem samfélag verðum að krefjast þess að þeir sem bera ábyrgð á þessum ógeðfellda verknaði axli ábyrgð og taki afleiðingunum af hrottaskapi þeirra. Við sem samfélag getum ekki sætt okkur við að stofnanir samfélagsins og kjörnir fulltrúar komi fram við fólk með þessum hætti. Aldrei.“