Sauð upp úr á alþingi: sjáðu myndbandið - steingrímur j. missti stjórn á skapi sínu

Til snarpra orðaskipta kom á milli Steingríms J. Sigfússonar forseta Alþingis og Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar á Alþingi í dag undir liðnum um fundarstjórn forseta. Sigurður Ingi Jóhannsson hafði boðað til fundar með þingmönnum höfuðborgarsvæðisins um endurbætur í samgöngumálum á höfuðborgarsvæðinu á sama tíma og þingfundur stóð yfir í dag. Á sama tíma stóð til að ræða tekjuskatt og sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki á Alþingi. Vísir fjallaði um málið.

Nokkrir þingmenn kváðu sér hljóðs undir liðnum fundarstjórn forseta og létu óánægju sína í ljós með það að fundurinn í ráðuneytinu væri á sama tíma og þingfundur stæði yfir. Þorgerður Katrín var ósátt og sagði:

„Af hverju í ósköpunum getur ríkisstjórnin ekki skipulagt sig betur og meira í samvinnu við og af virðingu við Alþingi Íslendinga? Það er boðaður fundur á eftir uppi í ráðuneyti sem gengur út á það að hækka skatta á Suðvesturhornið. Er verið að reka okkur þingmenn Suðvesturhornsins frá þinginu á meðan?“

Steingrímur sagði þá að hann mælti með að skattamál yrðu rædd síðar, þegar þau væru á dagskrá þingsins.

Þorgerður Katrín greip þá fram í og sagði: „Af hverju er ekki færi á að ræða þau?“ og Steingrímur svaraði: „Það fellur tæplega undir fundarstjórn forseta að fara út í efnislega umræðu um skatta.“

Þorgerður Katrín:  „Ég vil fá það skriflegt.“

Steingrímur hvassyrtur: „Forseti stendur ekki orðaskiptum við þingmenn. Forseti segir það sem hann vill segja og þingmenn hlusta.“

Þorgerður Katrín:  „Það er málfrelsi hér í þinginu.“

Steingrímur sagði þá reiður að ekki ætti að standa í frammíköllum við forseta.

Steingrímur fór svo fram á við samgönguráðuneytið að fresta ætti samráðsfundinum sem ætti að hefjast átti klukkan þrjú. Hér fyrir neðan má sjá Steingrím og Þorgerði takast á.