„sannleikurinn kemur þér langt en kærleikurinn alla leið!“ – guðmundur í brim og n1 styðja þorgrím

„Öll erum við mismunandi, til allrar hamingju! Sumir hafa meiri skilning á Samfélagslegri ábyrgð en aðrir og þannig verður það alltaf. Ástæða þess að ég hef getað heimsótt alla grunnskóla á landinu á hverju einasta ári, í áratug, og flutt fyrirlesturinn Verum ástfangin af lífinu fyrir nemendur í 10. Bekk, stundum yngri nemendur, er sú að forstjórar eða yfirmenn ákveðinna fyrirtækja sýna samfélagslega ábyrgð.“

Þetta segir Þorgrímur Þráinsson sem nú fagnar því að hafa fengið styrk frá Guðmundi Kristjánssyni forstjóra Brims og Eggerti Kristóferssyni forstjóra N1. Þorgrímur hefur heimsótt nemendur í öllum skólum landsins til að flytja fyrirlesturinn: Verum ástfangin af lífinu. Aðrir sem hafa stutt við bakið á Þorgrími eru: Pokasjóður, Bónus, Hagkaup, Bláa lónið og Icelandair. Nú bætast N1 og Brim í þann hóp og getur Þorgrímur þannig boðið uppá fyrirlestra skólum að kostnaðarlausu. Þorgrímur segir:

„Það var sérstaklega gaman að ræða við þá Guðmund Kristjánsson, forstjóra Brims, og Eggert Kristófersson, forstjóra N1, um margvíslega samfélagslega ábyrgð og þeir eru algjörlega með puttann á púlsinum. Vissulega hef ég þekkt þá báða áratugum saman og það hefur skapað ákveðið traust. Orðsporið er gulls ígildi.“

Fyrsti fyrirlesturinn verður í Árbæjarskóla 22. ágúst og síðan tekur hver skólinn við af öðrum. Þorgrímur bætir við:

„Ég verð á Austurlandi í september og er gríðarlega spenntur fyrir því að taka upp þráðinn þar sem frá var horfið síðastliðið vor. Inn á milli held ég fyrirlestur fyrir fyrirtæki en sá fyrirlestur heitir: Hver er þinn tilgangur -- ertu þjónn eða þræll?“

Þá segir Þorgrímur að lokum: „Það eru forréttindi að vera í ástríðunni alla daga, að hafa haft hugrekki til að treysta lífinu fyrir því að allt eða flest gangi upp. Sannleikurinn kemur þér langt, en kærleikurinn alla leið!“