Þorsteinn már svarar kveik fullum hálsi og veður í jóhannes – saka hann um að fara illa með fjármuni félagsins - „okkur er illa brugðið“

Í fréttaskýringu Kveiks og Stundarinnar um útgerðarfélagið Samherja er sagt að það stundi stórfelldar mútugreiðslur til stjórnmálamanna og opinbera starfsmanna í Namibíu í Afríku með því markmiði að fá  fiskveiðikvóta. Einnig kemur fram í fréttaskýringunni að Samherji hafi notfært sér skattaskjól í þeim tilgangi að koma hagnaði úr landi. Þá notaði Samherji við norska ríkisbankann DNB til að millifæra mútugreiðslur til Dúbaí. Í samtali við Kveik sagði Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, að þær millifærslur yrðu rannsakaðar ef kæmi í ljós að um mútur væri að ræða. 

Samherji sendi nú rétt fyrir klukkan ellefu í kvöld frá sér yfirlýsingu vegna þáttarins. Þar er haft eftir Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóra Samherja. Um ásakanirnar segir hann:

„Það voru okkur mikil vonbrigði að komast að því að Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri og stjórnarmaður Samherjafélaganna í Namibíu, virðist hafa tekið þátt í gagnrýnisverðum viðskiptaháttum og hugsanlega flækt Samherja í viðskipti sem kunna að vera ólögmæt.“

Þá er Jóhannes Stefánsson, sem sagt var upp störfum á árinu 2016 sakaður um það af Samherja að hafa misfarið með fé Samherja og hegðaði sér með óforsvaranlegum hætti. Þá segir einnig í yfirlýsingunni.

„Nú hefur hann viðurkennt að hafa tekið þátt í ólöglegri starfsemi á meðan hann stýrði dótturfélögum Samherja í Namibíu.

Þar til nýlega höfðum við enga vitneskju um umfang og eðli þeirra viðskiptahátta sem Jóhannes stundaði og óvíst er hvort þeir hafi verið raunverulega með þeim hætti sem hann lýsir. Eins og við höfum þegar greint frá höfum við ráðið alþjóðlegu lögmannsstofuna Wikborg Rein í Noregi til að rannsaka starfsemina í Namibíu. Í þeirri rannsókn verður ekkert undanskilið og munum við upplýsa um niðurstöður hennar þegar þær liggja fyrir.

Í yfirlýsingunni segir að Samherji hafi lagt sig fram við að starfa í samræmi við lög og reglur á hverjum stað og fyrirtækið hafi ekkert að fela. Þorsteinn Már segir:

„Okkur er illa brugðið. Ekki einungis við það að Jóhannes staðhæfi að hann hafi tekið þátt í starfsemi af því tagi sem hann lýsir en ekki síður að hann skuli einnig beina ásökunum sínum að fyrrum samstarfsfólki sínu hjá Samherja. Þetta eru ekki vinnubrögð sem við könnumst við.“

Þrátt fyrir að Þorsteinn taki fram í yfirlýsingunni að Samherji hafi ekkert að fela, neitaði Samherji að ræða við Kveik um málið fyrir framan myndavélar.