Saksóknari með upptöku af andláti stúlkunnar við snorrabraut: kölluðu stúlkuna ítrekað röngu nafni

Kona fædd árið 1994 sem lést í bakgarði við íbúðarhús við Snorrabraut á þriðjudaginn í síðustu viku var aðeins í um 500 metra fjarlægð frá bráðamóttöku Landspítalans þegar hún fór í hjartastopp. Samkvæmt heimildum Hringbrautar var stúlkan í för ásamt ungum manni þegar hún hljóp inn í garðinn. Þrír lögreglubílar komu á vettvang og lögregluþjónar fóru á eftir stúlkunni sem var í miklu ójafnvægi. Þar reyndu þrír til fjórir lögregluþjónar að yfirbuga stúlkuna. Stúlkan var afar smágerð og í geðrofi vegna neyslu að sögn foreldra hennar. Harkaleg átök átti sér víst stað og vöknuðu íbúar í grennd við lætin. Eftir að lögregluþjónarnir yfirbuguðu stúlkuna fór hún í hjartastopp.

Lögregluþjónarnir hófu þá endurlífgun og um leið var kallað eftir sjúkrabíl. Sjúkrabíll kom sex mínútum síðar á vettvang. Þar reyndu sjúkraflutningamenn endurlífgun með hjartastuðtæki. Um tuttugu mínútum eftir að lögregluþjónar yfirbuguðu stúlkuna var hún flutt úr garðinum. Þá vekur athygli að lögregluþjónarnir ávörpuðu stúlkuna ítrekað með röngu nafni og töldu að hún héti Ester, sem er rangt. Svo virðist sem lögreglumenn á staðnum hafi talið að þeir ættu í samskiptum við aðra manneskju.

Í frétt RÚV um málið segir að stúlkan hafi verið í hjartastoppi í 40 mínútur. Samkvæmt öruggum heimildum Hringbrautar var hún frá því hún hljóp inn í garðinn við Snorrabraut þar í 20 mínútur en garðurinn er eins og áður segir í um 500 metra fjarlægð frá gjörgæsludeild Landspítalans. Sé það rétt sem kemur fram í frétt RÚV að stúlkan hafi verið í hjartastoppi í um 40 mínútur, hefur hún verið í sjúkrabíl í 20 mínútur eftir að hún var flutt úr garðinum.

\"\"

Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að foreldrar stúlkunnar höfðu gagnrýnt afskipti lögreglu og talið að ekki hefði verið beitt réttum aðferðum. Þá hefði liðið of langur tími þar sem dóttir þeirra hefði verið látin afskiptalaus í hjartastoppi. Samkvæmt heimildum Hringbrautar hófu lögregluþjónar sem voru þrír til fjórir og reyndu fyrst að yfirbuga stúlkuna strax endurlífgun þegar ljóst var að stúlkan hafði farið í hjartastopp. Þá segir í frétt á vef Morgunblaðsins að stúlkan hafi verið handjárnuð á höndum og fótum. Heimildarmenn Hringbrautar telja að svo hafi ekki verið.  Með stúlkunni var ungir maður og hefur hann samkvæmt heimildum Hringbrautar einnig gefið skýrslu hjá Héraðssaksóknara.

Stúlkan sem er 25 ára hafði verið í eiturlyfjaneyslu en hún byrjaði seint í fíkniefnum, 22 ára gömul. Hún hafði ítrekað reynt að hætta neyslu og var án fíkniefna í hálft ár í fyrra. Þá sagði einn heimildarmaður Hringbrautar að stutt sé síðan hann rakst á hana á AA-fundi. Foreldrar stúlkunnar segja að stúlkan hafi verið í geðrofi og það hafi fyrst gerst mánuði áður.

Á spítalanum kom svo í ljós að stúlkan hafði hlotið mikinn heilaskaða vegna súrefnisskorts og lést hún um morguninn. Þegar foreldrar stúlkunnar komu á vettvang var stúlkan í öndunarvél en var í raun látin. Er það skoðun foreldra að lögregla hefði frekar átt að sprauta stúlkuna niður.

\"\"

 

Hringbraut ræddi við Ólaf Þór Hauksson héraðssakóknara. Hann vildi ekki staðfesta hvort til væri myndskeið af því sem gerðist. Samkvæmt öruggum heimildum Hringbrautar náðist atvikið á myndband og er Héraðssaksóknari með það nú undir höndum. Segir Ólafur að embættið taki málið mjög alvarlega. Er það hlutverk embættisins að rannsaka atvik þar sem fólk lætur lífið eftir afskipti lögreglu. Ólafur sagði í samtali við Hringbraut: „Rannsókn málsins hófst fljótlega eftir að þetta atvik átti sér stað og stendur sú rannsókn enn yfir. Það er lögð áhersla á það að fá sem allra gleggsta mynd af því sem gerðist.“ 

Hringbraut ræddi við móður stúlkunnar. Foreldrarnir áttu fund með héraðssaksóknara í dag og fara yfir málið. Segir móðir stúlkunnar að eins og staðan er núna viti þau lítið um málavexti. Vilja þau vita nákvæmlega hvað gerðist og með hvaða hætti. „Við fáum vonandi svör fljótlega,“ segir móðir stúlkunnar í samtali við Hringbraut.

Við minnum á Facebook-síðu Hringbrautar. Þar er að finna áhugaverðar fréttir og þá er ýmislegt spennandi framundan fyrir vini Hringbrautar á Facebook. SMELLTU HÉR og vertu vinur okkar á Facebook.