Rukka látinn mann: Skorar á bankann að gera góðverk og hætta að særa fólk út í bæ

Rukka látinn mann: Skorar á bankann að gera góðverk og hætta að særa fólk út í bæ

„Í gærkvöldi beið mín þetta bréf. Sólvangur hafði sent það áfram til mín. Það er dagsett 2. september sl. og í því hvetur Arion banki pabba til að leysa málin með sér. Pabbi dó í júní, bankinn fékk upplýsingar um það degi síðar. Skiptum var lokið 3 vikum eftir dánardag og dánarbúið úrskurðað eignalaust.“

Þannig hefst frásögn Gríms Atlasonar, framkvæmdastjóra Geðhjálpar. Grímur greinir frá því á Facebook að honum hafi borist bréf sem beint er til látins föður hans og skorað á að ganga frá skuld. Þá kemur einnig fram að látinn faðir hans eigi að greiða 2.100 krónur í innheimtukostnað. Á Facebook-síðu hans kemur fram að fleiri hafa lent í svipaðri reynslu. Grímur segir:

„Pabbi kemur ekki til með að finna lausn með Arion banka eða öðrum banka. Það kæmi mér samt ekki á óvart ef lögfræðideildin héldi sínu striki og starfaði áfram samkvæmt einhverjum ferlum og sói þannig tíma og fjármunum bankans við að finna lausn með pabba. Ég skora á bankann að reikna heldur tímann sem fer í þessa vitleysu og setja á hann verðmiða. Gefa upphæðina góðu málefni. Með því gerir bankinn góðverk og hættir að særa fólk út í bæ með ónærgætni sinni,“

segir Grímur og bætir við:

„Það sem er fallegast við þessa sögu er að ég held að þetta sé UNICEF stuðningur pabba sem skuldfærður var mánaðarlega af kreditkortinu hans. Í öllu hans ölduróti og erfiðleikum studdi hann samviskusamlega UNICEF og þegar hann gat þá studdi hann Omega sjónvarpsstöðina líka. Ef allir létu jafn mikið hlutfall rakna til góðgerðarmála og pabbi gerði af jafn litlum tekjum þá væri talsvert betur komið fyrir okkar minnstu bræðrum og systrum.“

Nýjast