Ríkisstjórnin nötrar og skelfur: sigurður ingi hljóp á sig

Gríðarlegur titringur er nú í ríkisstjórnarsamstarfinu vegna blaðamannafundar Sigurðar Inga Jóhannssonar um drög að nýrri samgönguáætlun. Samkvæmt vef Fréttablaðsins hafði hvorki ríkisstjórnin né þingflokkar stjórnarflokkanna fengið kynningu á áætlun Sigurðar og lásu bæði ráðherrar og stjórnarliðar um að til stæði að halda blaðamannafund í fjölmiðlum. Í þeim hópi var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sem og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.

Þá segir einnig á vef Fréttablaðsins að útbreidd óánægja sé í báðum flokkum. Á þetta einnig við um þingmenn og ráðherra stjórnarflokkanna. Á vef Fréttablaðsins segir:

„Að sögn er óánægja með vinnubrögð samgönguráðherra útbreidd í þingliði Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins, samstarfsflokka Framsóknarflokksins.“

Þegar þingmenn lásu um kynninguna í gær upphófst rekistefna og var boðað til skyndifunda með þingmönnum stjórnarflokka til að reyna að kynna helstu þætti áætlunarinnar. Sú tilraun, að reyna að bjarga málinu fyrir horn á síðustu stundu mun hafa skilað litlu og skapaðist mikill óróleiki vegna ákvörðunar Sigurðar Inga. Það er því óhætt að segja að ríkisstjórnin titri nú vegna málsins.