Rekin upp úr sundlauginni í þorlákshöfn: „svo var þetta bara eins og jarðskjálfti“ – sjáðu myndbandið

Gestir í sundlauginni í Þorlákshöfn voru reknir upp úr á meðan mikið eldingaveður gekk yfir bæinn á þriðja tímanum í dag. Hákon Svavarsson póstburðarmaður í Þorlákshöfn segir í samtali við RÚV að hann hafi orðið að forða sér hið snarasta þegar óveðrið brast á.

„Ég heyrði einhverjar svakalegar drunur og hélt að það væri verið að sprengja eitthvað niður á höfn. En svo var þetta bara eins og jarðskjálfti og þessu fylgdi ein mesta rigning sem ég hef séð á ævi minni.“

Þá kemur fram í frétt RÚV að nokkur fjöldi hafi verið í lauginni og hafi gestir verið beðnir að halda til í innilauginni á meðan eldingaveðrið gekk yfir, en níu eldingar mældust á rúmum hálftíma á meðan óveðrinu stóð. Litlar líkur eru á að eldingaveðrið nái til höfuðborgarsvæðisins. Hér má sjá myndskeið sem Jón Karl Jónsson tók fyrr í dag.