Ragna kýldi mann niður stiga sem áreitti hana kynferðislega: „ég var dauðhrædd“

Ragna Árnadóttir var gestur Sigmundar Ernis í þættinum Mannamál sem sýndur er á Hringbraut á fimmtudagskvöldum. Ragna var ráðinn skrifstofustjóri Alþingis í sumar og tók við starfinu af Helga Bernódussyni. Ragna er fyrst kvenna til að gegna starfinu. Ragna er ekki alveg ókunn stjórnmálum en hún var dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Samfylkingarinnar og Vinstri grænna á árunum 2009 til 2010 og kom inn í ríkisstjórnina utan flokka. Þá var Ragna einnig aðstoðarforstjóri Landsvirkjunar.

Viðtalið hefur strax vakið mikla athygli og á einum stað spyr Sigmundur Ernir hvort hún hefði í kjölfar metoo-byltingarinnar velt fyrir sér hvort hún hefði orðið fyrir kynferðislegu áreiti eða ofbeldi á sínum ferli.

Sigmundur Ernir: Hefur verið abbast upp á þig?

„Já já, Guð minn góður,“ svaraði Ragna og hélt áfram: „Dóttir mín spurði:

„Hefur þú lent í einhverju?“

Ragna kveðst fyrst hafa neitað en síðan sagt frá ákveðnu atviki en á þeim tímapunkti ekki fundist það mjög alvarlegt. Í kjölfarið á lýsingunni sagði dóttir hennar að það sem gerðist hefði verið hræðilegt. Ragna heldur áfram:

„Þá fór ég að hugsa: Við eigum að hlusta á þetta unga fólk, konur og menn, af því að þau sætta sig ekki við hluti sem að við höfum sætt okkur við.“ Ragna bætti við:

„Hvað er það að fara á disótek og láta klípa í sig? Þetta var bara svona þá.“

Sigmundur Ernir: Þú kýldir nú einn, þá?

„Er það bara venjulegt að tvítug kona segi: „Jæja, þarna er búið að klípa mig“ og ég var nú vön að gefa utan undir,“ svaraði Ragna en bætti við að það væri heldur ekki gott. Það væri líka ofbeldi. Ragna sagði:

„Svo kýldi ég einn svo svakalega að ég var hrædd um að ég hefði meitt hann. Hann væri rotaður eða eitthvað verra. Þá hugsaði ég: Héðan í frá ætla ég ekki að kýla fleiri þegar þeir káfa á mér þegar ég fer á diskótek. Hvað er það?“

Sigmundur Ernir: Hrundi hann ekki niður stiga?

„Jú, ég var dauðhrædd. Ég var með ægilegan móral,“ svaraði Ragna.

Hér fyrir neðan má sjá þáttinn í heild sinni - Á mínútu 26:20 segir Ragna frá þessu atviki