Pisa sjokkið kemur alltaf segir forstjóri menntamálastofnunar í þættinum 21 hjá lindu blöndal

“Það kemur alltaf PISA sjokkið”, segir Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar um niðurstöður PISA rannsóknarinnar sem hefur verið gerð á þriggja ára fresti frá árinu 2000.

Arnór var gestur Lindu Blöndal í þættinum 21 í kvöld.

PISA er alþjóðleg könnun á hæfni og getu 15 ára nemenda í lestri, náttúrufræði og stærðfræði. Alls taka tæplega 80 þjóðir þátt í rannsókninni og hún nær til um 600 þúsund barna í OECD löndunum. Í ár var lögð sérstök áhersla á lesskilning.

PISA sjokkið, segir Arnór verða í hvert sinn sem þegar niðurstöður eru ljósar og íslensk ungmenni ná ekki þeim árangri sem okkur þykir nægur og svolítið panikk ástand verður næstu daga á eftir. Niðurstöður þessarar könnunar í ár, sem er gerð í sjöunda sinn nú, hafa ekki þótt góðar fyrir Ísland en lesskilningur hefur ekki bæst frá því síðast að marktækum mun.

“Við höfum horft á hin svokölluðu sex hæfnisþrep í PISA. Það er talað um að ef við náum hæfniþrepi tvö að þá geti maður lesið sér til gagns, þessi grundvallarfærni sem þú verður að ná í lestri til að geta tekist á við lífið og frekara nám”

“Það má geta að þetta eru heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna að allir nái lesskilningi á hæfnisþrepi tvö”

Og hvernig komum við út úr því á Íslandi?

“Því miður er mikill kynjamunur, 34 prósent drengjanna ná ekki þessu öðru hæfniþrepi og 19 prósent stúlknanna. Þarna erum við töluvert frá því markmiði sem stjórnvöld hafa sett sér”, og bendir á að niðurstöður PISA séu líka vísbendingar um hvernig okkur hafi tekist á Íslandi að innleiða breytingar á menntakerfinu og hversu gott það sé. Sá árgangur sem sé nú prófaður hafi til dæmis lent í niðurskurði vegna hrunsins svo allt verði að taka með í reikninginn þegar niðurstöður eru skoðaðar.

“Þetta er líka samanburður á milli skólakerfa”, bætir Arnar við.

“En góðu fréttirnar er að íslensku ungmennunum fer fram í stærðfræði, við erum ein af sex OECD ríkjum sem bæta sig í stærðfræði núna”, segir Arnar. OECD ríkin eru 30 talsins.

Gagnrýnin

Margt er kannað í PISA og gagnrýni um að þar sé rannsakað mjög afmarkað svið, segir Arnar að sé ekki raunin heldur sé reynt á gagnrýna hugsun og í raun getu ungs fólks til að búa sig undir að verða lýðræðissinnaðir borgarar.

“Það er verið að mæla margt sem skiptir miklu máli. Ég hvet fólk til að skoða á vefsíðunni pisa.is hvað verið er að kanna. Þar þarf til dæmis að skoða ólíka texta og greina hann og rannsaka hvort slíkur texti sé rökréttur eða eigi við rök að styðjast”, segir Arnar.