Pálmar: „hreint út sagt skelfilegt“ - starfsmönnum hótað lífláti og ógnað með hníf - sérstök öryggisgæsla á staðnum

Pálmar Harðarson, eigandi verktakafyrirtækisins Þingvangs, segir að samstarf fyrirtækisins við íbúa smáhýsa við Fiskislóð vera skelfilega. Reykjavíkurborg rekur smáhýsin og eru þau ætluð sem úrræði fyrir heimilislaust fólk í borginni. Fyrirtæki Pálmars vinnur nú við að reisa hverfisbækistöð fyrir Reykjavíkurborg að Fiskislóð, þar sem smáhýsin eru. Vegna framkvæmdanna átti að færa smáhýsin til, en það hafi ekki verið hægt þar sem þetta hafi verið heimili þeirra og þeir búi þarna enn þá. RÚV greinir frá þessu.
 

Pálmar segir í bréfi til stjórnar Faxaflóahafna að þarna sé mikil eiturlyfjaneysla, eiturlyfjasala, ofbeldi, þjófnaður og sóðaskapur. Þá segir hann einnig að starfsmenn á vegum fyrirtækisins hafi fengið líflátshótanir og verið ógnað með hnífum. Starfsmenn Þingvangs hafi til dæmis orðið vitni af aðgerðum lögreglu vegna tilraunar til manndráps og kynferðisofbeldi á staðnum. Vegna þessa aðstæðna segir Pálmar að það sé sérstök öryggisgæsla til að gæta öryggis starfsmanna og aukið eftirlit sé til að vernda eigur Þingvangs, en skemmdarverk hafa verið unnin á eigum fyrirtækisins.

„en því miður eftir allan þennan tíma er reynsla starfsmanna Þingvangs hreint út sagt skelfileg,“ segir Pálmar í bréfinu 

Í bréfinu kemur einnig fram að Þingvangur hafi kært deiliskipulagsbreytinguna til úrskurðarnefndar umhverfis-og auðlindamála.  Pálmar segir að borgin ætli sér að komast hjá banni við íbúðabyggð á svæðinu með þeim rökum að þetta sé eingöngu tímabundið úrræði.

„Úrræðið getur því ekki talist annað en varanlegt uns borginni hefur auðnast að leysa þann vanda sem hrjáir þennan hóp fólks.“