Össur: „hvernig ætlar dómsmálaráðherrann að bregðast við?“ - haraldur talar um spillingu innan lögreglunnar

„Ríkislögreglustjóri fullyrðir í dag í viðtali við dagblað sem aldrei lýgur að spilling ríki innan lögreglunnar. Þetta virkar galið en engar forsendur hef ég til að efast um að ríkislögreglustjóri sé með réttu ráði. Viðtalið ber líka með sér að hin fordæmalausa og sögulega yfirlýsing um spillta lögreglu hafi verið sett fram að yfirlögðu ráði.“

Þannig hefst Facebook færsla Össurar Skarphéðinssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra, vegna viðtals Morgunblaðsins við Har­ald­ Johannessen, ríkislögreglustjóra. Í viðtalinu fer Haraldur um víðan völl og talar meðal annars um mögulega spillingu innan lögreglunnar. 

„Ég hef líka bent á að ekki eigi að líða spill­ingu inn­an lög­regl­unn­ar. Hluti af umræðunni sem er að brjót­ast fram núna er kannski einnig vegna þeirr­ar af­stöðu minn­ar. Ég hef til dæm­is bent á að það fari ekki sam­an að lög­reglu­menn séu meðfram starfi sínu í póli­tísku vafstri. Það fer að mínu viti ekki sam­an,“ segir Haraldur í samtali við Morgunblaðið.

Undanfarnar vikur hafa borist fréttir af mikilli óánægju innan lögreglunnar vegna starfa Haraldar sem ríkislögreglustjóra, meðal annars er kvartað undan rekstri bílamiðstöðvar Ríkislögreglustjóra og vegna búningamála lögreglunnar. Hefur Rík­is­end­ur­skoðun ákveðið að gera stjórn­sýslu­út­tekt á embætti rík­is­lög­reglu­stjóra. Haraldur segir að um áróður sé að ræða og ekkert sé til í gagnrýninni á störfum hans. 

„Mér var sagt að það hefði verið sett af stað áróður­svél sem mallaði á netmiðlum og í fjöl­miðlun­um. Ég veit það ekki. Ég get ekki sannað það og í raun þarf ég ekki að sanna það því mér er hreint sama. Það var svo sem skilj­an­legt vegna þess að þar var um stóra rann­sókn að ræða gagn­vart aðilum sem höfðu mjög mik­illa hags­muna að gæta og eðli­legt í sjálfu sér. Þannig að ég gat ekki fundið að því op­in­ber­lega og hef aldrei gert þar til núna að ég bendi á þetta. Ég er sem sagt al­inn upp við þetta og hef búið við þessa áróður­svél ára­tug­um sam­an,“ segir Haraldur

Össur segir að Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, hljóti að bregðast við þessum ummælum Haraldar.

„Hvernig ætlar dómsmálaráðherrann að bregðast við? Hún getur ekki setið aðgerðalaus. Í því fælist að hún líti á ríkislögreglustjóra sem marklausan embættismann. Einstaklingur sem dómsmálaráðherra tekur ekki mark á getur hins vegar ekki verið ríkislögreglustjóri. Hún verður því að bregðast við með einhverjum hætti.“

Þá segir Össur að Áslaug Arna verði að setja af stað rannsókn vegna þeirra orða sem Haraldur lét falla í viðtalinu. 

„Nýr dómsmálaráðherra verður annaðhvort að láta rannsaka hvaða rök liggja að baki svo alvarlegri ásökun eða skipta um ríkislögreglustjóra með hraði. Hið eina sem hún getur ekki er að láta eins og ekkert hafi gerst. Málið er of alvarlegt til þess. Ef rannsókn leiðir í ljós að yfirlýsing ríkislögreglustjóra á við rök að styðjast er gott til að þess að vita að nýi dómsmálaráðherrann er vösk og líkleg til að láta hendur standa fram úr ermum við að hreinsa til í löggunni. Ef niðurstaðan er á annan veg verður staða ríkislögreglustjóra væntanlega auglýst á næstunni.“