Össur: „arnar er minn maður og málið er dautt!“ – er þetta lausnin á orkupakka 3? sjáðu myndbandið

„Arnar Þór Jónsson, dómari, hefur birst sem þokkalega viti borin vera í röðum andstæðinga orkupakkaræfilsins. Hann sagði í morgun á fundi þingnefndar \"engan ágreining um að ekki væri lögð skylda á aðildarríki að leggja sæstreng.\" Þá liggur það fyrir frá klárasta andstæðingi orkupakkaamlóðans. Um hvað eru menn þá að rífast? Arnar er minn maður og málið er dautt!“

Þannig hefst innlegg eftir Össur Skarphéðinsson, fyrrverandi utanríkisráðherra á Facebook. Þar fjallar Össur um 3 orkupakkann. Í umræðum um hann rifjar Össur upp viðtal Davíðs Stefánssonar, ritstjóra Fréttablaðsins, við Hauk Óskarsson tæknifræðing sem hefur starfað lengi á Grænlandi. Össur bendir þar á aðra möguleika en orkupakka 3. Sá möguleiki er að taka upp samstarf við Grænlendinga og selja þaðan orku í gegnum Ísland.  

Össur bendir á að andstæðingur orkupakkans, Ragnar Önundarson, hafi nefnt sæstreng á milli Íslands og Grænlands. Segir Össur að það sé frábær hugmynd. Sjálfur nefndi Össur árið 2011 að menn ættu ef til vill að huga að sæstreng á milli Íslands og Grænlands út af mögulegri orkuvinnslu á norðaustur Grænlandi.

Í þættinum Ísland og umheimurinn spurði Davíð hvaða skoðun Haukur hefði á því. Haukur svaraði:

„ ... þessir möguleikar eru alltaf að opnast eins og virkjunin sem var byggð í Ilulissat, það var bara vegna þess að jökullinn hopaði, það komu möguleikar og þessir möguleikar eru alltaf að aukast. Það er heilmikið vatn sem rennur þarna til sjávar, þetta er stærsti jökull á norðurhveli. Þetta er náttúrulega fín hugmynd,“ sagði Haukur og bætti við að það væru þó ekki miklir möguleikar að nýta orkuna á Austur-Grænlandi. Það búa fáir og landið er stórt. Haukur segir:

„Þannig að ef að menn eru þarna með vatn sem fellur þarna til sjávar engum til gagns finnst mér sjálfsagt að nýta það og selja það og ef það á að selja það liggur beinast við að selja það í gegnum Ísland og þaðan út.“