Ómótstæðilega freistandi púðursykurmarengs hnallþóra á 17. júní

Matarást Sjafnar

Ómótstæðilega freistandi púðursykurmarengs hnallþóra á 17. júní

17. júní Hnallþóran, púðursykursmarengs.
17. júní Hnallþóran, púðursykursmarengs.

Flest okkar höldum við í ákveðnar hefðir og siði þegar kemur hátíðisdögum eins og páskum, jólum, sumardeginum fyrsta og svo lengi mæti telja. Framundan er þjóðhátíðardagur okkar Íslendingar, 17.júní og tilefni þess heimsækir Sjöfn Þórðar sælkera og fagurkera sem njóta þess að halda í góða siði og venjur og líka að búa til nýjar hefðir fyrir næstu kynslóðir. Að þessu sinni heimsækir Sjöfn, Berglindi Hreiðarsdóttur matar- og kökubloggara með meiru sem er einn af okkar beztu bökurum landsins. Berglind segir okkur frá sínum hefðum og siðum í tengslum við 17. júní í bernsku. Einnig ljóstrar Berglind upp hvað hún ætlar að baka í tilefni dagsins og gefa okkur uppskriftina.

Hver er þín helsta minning í tengslum við 17.júní í barnæsku?

„Þegar ég var yngri var alltaf farið til ömmu Guðrúnar á 17.júní þar sem hún bjó á Suðurgötunni og það var dásamlegt að fylgjast með af svölunum hjá henni og rölta svo niður í miðbæ. Ef það er einhver minning sem ég tengi við 17.júní þá er það sko sannarlega candyfloss. Ég elskaði... já og elska reyndar enn candyfloss,“ segir Berglind og hlær.  Berglind segir að hápunktur þessa dags hafi verið að því að fá einn slíkan og svo var hafi amma hennar alltaf verið með kaffi fyrir gesti og gangandi með rjómatertu, salötum og tilheyrandi. „Ég hef því haldið í hefðina að hafa alltaf kaffi á 17.júní fyrir þá sem kíkja við þó ég búi svo sannarlega ekki í miðbænum.  Oft verða vöfflur fyrir valinu því það er svo auðvelt að stýra bakstri á þeim en síðan jafnast ekkert á við góða rjómatertu og stefni ég einmitt á að baka eina slíka fyrir mánudaginn. Ég ætla að gera púðursykurmarengsinn hans pabba eins og oft áður þar sem hún er svo einföld og sannarlega viðeigandi hnallþóra fyrir þjóðhátíðardaginn,“ segir Berglind með bros á vör.

Haldið þið fast í ákveðnar venjur og siði á þessum hátíðardegi?

„Varðandi venjur á þessum degi þá eru þær alls ekki í föstum skorðum. Höfum stundum kíkt í skrúðgöngu en það fer eftir veðri hversu mikið við nennum að eltast við slíkt. Undanfarin ár höfum við látið duga að kíkja á hátíðina með stelpurnar hér í Mosfellsbænum og það svo sannarlega dugað okkur vel svo það er spurning hvenær við förum að eltast aftur við miðbæinn.“

Púðursykursmarengs að hætti pabba

4 eggjahvítur

5 dl púðursykur

600 ml rjómi

100 g suðusúkkulaði (saxað)

Byrjið á því að hita bakaraofninn í 130°gráður. Stífþeytið eggjahvítur og púðursykur saman.  Teiknið hring (um 20cm í þvermál) á bökunarpappír og leggið pappírinn á sitthvora bökunarplötuna.  Skiptið stífþeytta marengsnum á milli og jafnið út að línunni, takið svo gaffal og teiknið toppa á marengsinn.

Bakið í um það bil 60 mínútur, slökkvið á ofninum og leyfið botnunum að kólna með ofninum svo þeir falli síður. Takið um 30 g af suðusúkkulaðinu og bræðið. Hellið í lítinn poka og klippið smá gat á eitt hornið, rennið því næst fram og aftur um þann botn sem þið ætlið að hafa ofaná kökunni.

Stífþeytið rjómann og blandið  restinni af söxuðu suðusúkkulaðinu varlega saman við. Smyrjið á milli botnanna og leyfið kökunni að stand í ísskáp í minnsta kosti sólahring áður en hún er borin fram.

Hægt er að fylgjast með blogginu hennar Berglindar á heimasíðu hennar: www.gotteri.is og meðfylgjandi er vefslóðin fyrir marengshnallþóruna: https://www.gotteri.is/2015/06/16/pudursykurmarengsinn-hans-pabba/

Gleðilega þjóðhátíð.

Nýjast